*

Tölvur & tækni 26. desember 2015

Kemur nýr iPhone í apríl?

Kínverskt farsímafyrirtæki sagði á dögunum frá því að nýr iPhone kæmi í búðir þess í apríl.

Apple hefur, eins og fyrirtækisins er von og vísa, verið fáort um næstu útgáfu iPhone snjallsímans, en svo virðist sem kínverska farsímafyrirtækið China Mobile, hafi af slysni sagt meira um næsta síma en Tim Cook og félagar í Apple hefðu viljað.

Á fréttamannafundi fyrir nokkrum dögum kynnti China Mobile, sem er í eigu kínverska ríkisins, þær vörur sem yrðu á boðstólum fyrirtækisins á næsta ári. Í kynningunni sagði að þar á meðal yrði iPhone 7C og að hann færi í sölu í apríl á næsta ári.

Sé þetta rétt er ekki óvarlegt að ætla að síminn verði smærri og ódýrari útgáfa af iPhone 7, líkt og 5C síminn var ódýrari útgáfa af iPhone 5.

Stikkorð: Apple  • iPhone