*

Bílar 13. febrúar 2021

Kemur skemmtilega á óvart

Það verður að segjast eins og er að í reynsluakstri kom MG ZS EV nokkuð skemmtilega á óvart.

Róbert Róbertsson

MG sem framleiddi flotta, breska sportbíla á sjöunda áratugnum, er nú í eigu kínversku samsteypunnar SAIC sem hefur hafið mikla markaðsherferð með nafnið í Evrópu. MG ZS EV er fimm manna framhjóladrifinn og vel búinn sportjepplingur.

Rafbíllinn er búinn vatnskældri 44,5 kW rafhlöðu. Drægni rafhlöðu bílsins er 263 km samkvæmt WLTP staðli sem er ekki mesta hleðslan sem í boði er en hentar vel til innanbæjaraksturs og styttri ferðalaga utanbæjar nema hægt sé að hlaða á leiðinni. Hægt er að hraðhlaða bílinn allt að 80% á 40 mínútum.

Þokkalegt afl og þægilegur akstur
Bíllinn er með þokkalegasta afl en rafmótorinn skilar 143 hestöflum. Hámarkstog er 353 Nm. Bíllinn er 8,2 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað og hámarkshraðinn er 140 km/klst. Hann er ekki sá fljótasti af rafbílunum en alveg nógu snarpur í upptakinu enda frekar léttur eða rétt tæplega eitt og hálft tonn. Þessi hröðun og afl dugar svo sem flestum.

Aksturseiginleikarnir eru með ágætum og stýringin fín. Aksturinn er þægilegur og áreynslulaus. Fjöðrunin er nokkuð góð en mætti vera aðeins stífari í beygjum. Bíllinn er mjög hljóðlátur enda rafbíll og veghljóð lítið.

Bíllinn er frekar rúmgóður sérstaklega frammí og fyrir tvo farþega afturí en síður þegar þriðji bætist við í aftursætunum og þá ef allir eru í fullri stærð. Fótaplássið er samt ágætt og kemur sér vel fyrir hávaxna. Farangursrýmið er 450 lítrar sem er prýðileg stærð fyrir þennan flokk og hægt er að stækka það með einfaldri aðgerð.

Mjög vel búinn
Reynsluakstursbíllinn er í Luxury útgáfu og mjög vel búinn með leðursætum með fallegum ísaumi, leðurklæddu mælaborði og topplúgu. Efnisvalið er gott og frágangur sömuleiðis. Sætin eru þægileg en það vantar kannski helst aðdrátt á stýrið. Hægt er að velja um þrjú aksturskerfi, ECO, Normal og Sport sem er alltaf skemmtilegt val og gírstöngin er eins og í Jaguar þ.e. maður snýr skífu til að skipta á milli gíranna.

Líklega er þarna breska ætternið þótt merkið sé nú í eigu Kínverja. Allt er innan seilingar og allt á sínum stað. Svo eru nokkrir sniðugir eiginleikar í innréttingunni sem er úthugsað. 8” skjárinn sér um að veita afþreyingu í gegnum Apple og Android og gefur auk þess ökumanni helstu upplýsingar um aksturinn.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: MG  • EV  • ZS