*

Viðtal, Menning & listir 4. maí 2016

Kemur úr tónelskri fjölskyldu

Listamannsnafnið Dísa varð til með fyrstu sólóplötu Bryndísar Jakobsdóttur.

Eydís Eyland

Eftir vinnu hitti Dísu Jakobs nýverið í miðborg Reykjavíkur yfir rjúkandi heitum kaffibolla og með því.

Hver er Dísa Jakobs?

„Ég útskrifaðist sem lagasmiður úr tónlistarskólanum Rytmisk Musik Konservatorium síðastliðið sumar. Áhugi minn hefur þó lengi legið á sviði heilsu og heilunar og ég lauk fyrir nokkru heilsu- og íþróttanuddnámi í Danmörku og hef starfað við það með tónlistinni. Ég lærði á píanó og selló þegar ég var yngri og hef verið í söngnámi um árabil með það að leiðarljósi að nýta röddina sem margbreytilegt hljóðfæri. Ég hef mikinn áhuga á raddútsetningum, ferskum laglínum og margræðum textum. Síðan ég eignaðist börnin mín hef ég fókuserað meira á kvikmyndatónlist m.a. vegna þess að þá get ég unnið meira heima, tekið upp og sent áfram á fyrirtækin sem ég vinn með til að koma tónlistinni minni í auglýsingar, kvikmyndir o.s.frv.,“ segir Dísa.

„Listamannsnafnið Dísa varð til með fyrstu sólóplötunni minni, þá var ég um tvítugt, en ég tók það upp eftir ömmu minni og alnöfnu. Það sem ég valdi á þessa fyrstu sólóplötu var efni sem ég samdi á nokkrum mánuðum, skömmu áður en platan kom út. Ég varð snemma vör við að ég þyrfti að geta tekið mér hlé frá tónlistarsköpun og hlaðið batteríin á öðrum vettvangi. Ég flutti til Danmerkur 2009 og fór að vinna með hinum og þessum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Ég hef reyndar tekið upp efni í u.þ.b. þrjár plötur sem ég hef þurft að henda, því ég hef ekki verið nógu ánægð með efnið og upptökurnar.

Um þessar mundir flétta ég því saman að vera í samstarfi við önnur bönd og svo sóló. Ég nýt þess að vinna með öðru tónlistarfólki úr ólíkum geirum og stílum, hljóðrita og koma fram opinberlega, jafnt sem forsöngvari og bakraddasöngkona, stundum líka sem hljómborðsleikari og með loop og effekta græjur. Þannig nýt ég þess að fá að vera hluti af stærri heild sem snýst ekki bara um mig og mínar ákvarðanir. Það er gott að taka reglubundið smá pásu frá sjálfum sér,“ segir Dísa og brosir út í annað.“

Nánar er rætt við Dísu Jakobs í Eftir vinnu fylgiriti Viðskiptablaðsins.