*

Tölvur & tækni 3. nóvember 2015

Kenna bílum að umgangast börn

Google matar snjallbifreiðar sínar á gögnum um hegðunarmynstur ungra barna í kringum umferðargötur.

Tæknirisinn Google sem er hvað best þekktur fyrir leitarvél sína bauð á laugardaginn hóp ungra barna í heimsókn til sín á rannsóknarstofur fyrir sjálfkeyrandi bíla sína.

Börnin voru klædd í hina og þessa hrekkjavökubúninga, og hlupu um og léku sér dátt meðan bílarnir sátu í kring og söfnuðu gögnum til úrvinnslu um hreyfingar- og hegðunarmynstur barnanna.

„Þetta gefur snjallbílunum okkar tækifæri til að læra á hvernig börn hreyfa sig kringum umferðargötur, jafnvel þegar þau eru klædd í undarlega búninga,“ segir Google í bloggfærslu.

Rannsóknar- og þróunarteymi tæknirisans er meðvitað um hversu óútreiknanleg börn geta verið í umferðinni. Rúlli fótbolti út á götuna eiga þau til að hlaupa á eftir honum í hugsunarleysi, og sérlega getur verið erfitt að sjá smágert mannfólk bak við lagða bíla eða aðra hluti.

Þróunarteymið segir hreykið að þrátt fyrir að bílarnir séu ekki færir um að dást að búningasnilld ungmennana verði þeir að minnsta kosti meðvitaðir um að fara varlega kringum þau.

Stikkorð: Google  • Googleplex  • Snjallbílar