*

Hitt og þetta 30. maí 2014

Keppa um titilinn Hjólreiðamaður ársins

Öflugasta hjólreiðafólk landsins mun etja kappi að kvöldi 3. júlí næstkomandi.

Öflugasta hjólreiðafólk landsins mun etja kappi á Alvogen Midnight Time Trial hjólreiðakeppninni sem haldin verður að kvöldi 3. júlí næstkomandi. Keppt verður um titilinn hraðskreiðasti hjólreiðamaður Íslands 2014. Öflugir erlendir keppendur hafa boðað komu sína á mótið og munu keppa í þríþrautarflokki karla og kvenna. Sæbrautinni, einni helstu umferðaræð borgarinnar, verður lokað fyrir annarri umferð á meðan keppnin fer fram.

Í Alvogen Midnight Time Trial er keppt í götu- og þríþrautaflokki (16km og 32km) í kvenna og karlaflokki og veitt verða vegleg verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki. Lyfjafyrirtækið Alvogen er bakhjarl mótsins sem tileinkað er réttindum barna og munu öll skráningargjöld renna óskipt til UNICEF. Starfsmenn Alvogen um allan heim hafa einnig ákveðið að leggja samtökunum lið og um sjö milljónum króna verður úthlutað úr söfnunarsjóði Alvogen, Better Planet til UNICEF í tengslum við mótið.  

Rásmark er við Hörpu og þaðan er hjólað eftir Sæbraut að gatnamótum við Laugarnesveg og til baka að endamarki við Hörpu.  Snúið er við á keilum og keppnishringur er um 5,5 km langur.

Í tilkynningu segir að upplýsingar um skráningu megi nálgast á www.alvogen.is en hún hefst kl.10:00 þann 3. júní næsta.