*

Bílar 26. mars 2021

Keppnistímabilið í Formúlu 1 að hefjast

Formúlu 1 keppnistímabilið 2021 hefst á sunnudaginn er Grand-Prix kappaksturinn fer fram í Barein.

Það er ekki langt í það sem íslenskir mótorsportaðdáendur hafa eflaust verið að bíða eftir í allan vetur. Dagurinn rennur upp 28. mars en þá hefst keppnistímabilið í Formúlu 1 2021. Keppnisdagatal formúlunnar inniheldur sem stendur 23 spennandi keppnir og tímabilið hefst á einni af þeim bestu; Grand-Prix kappakstrinum í Barein. Viaplay er með sýningarréttinn á Formúlu 1 á Íslandi.

Getur Mercedes-liðið viðhaldið yfirburðum sínum? Eða mun einhver annar loksins gera tilkall til heimsmeistaratitilsins sem þeir hafa einokað síðustu ár? Við munum vonandi fá svör við þessum spurningum þegar Grand-Prix kappaksturinn í Barein hefst sunnudaginn 28. mars og þar með nýtt keppnistímabil í Formúlu 1, stútfullt af hasar úr fremstu flokki mótorsportsins. 

Öll liðin hafa staðist vetrarprófanir í Barein, þar sem Red Bull-liðið leit vel út; og með Sergio Perez við hlið Max Verstappen, þá líta þeir út eins og lið sem getur barist um báða titlana; heimsmeistaratitilinn og gert harða atlögu að Mercedes-liðinu. Og hvað með Aston Martin, sem eru nú orðnir Formúla 1 lið eftir að hafa tekið yfir Racing Point, með Sebastian Vettel, fjórfaldan heimsmeistara, sem einn af ökuþórum; gætu þeir komið á óvart?

„Geta Red Bull og Verstappen gert atlögu að hinum sigurstranglega Lewis Hamilton frá upphafi tímabilsins? Og eru Scuderia Ferrari mættir aftur eftir martröðina árið 2020? McLaren eru á spennandi leið upp með Mercedes-vélarnar sínar og tvíeykið Norris og Ricciardo. Mun Vettel sjá eftir því að hafa fært sig yfir til Aston Martin? Og hvernig gengur endurkoma Alonsos? Það er margt að hlakka til; halli, loftsaflsfræði og þrýstingur í dekkjum eru auðvitað þemu sem okkur varðar alltaf um. Formúla 1 2021 er byrjuð,“ segir Tom Kristensen, nífaldur sigurvegari Le Mans-kappakstursins og Formúlu 1 sérfræðingur hjá Viaplay.

Ferrari hefur lent í ýmsum vandamálum undanfarin ár og það verður spennandi að sjá hvort þetta sé árið sem liðið leysir þau. McLaren hefur skipt Renault-vélinni út fyrir Mercedes. Það gerir liðið varla verra og með Daniel Ricciardo sem nýja stjörnuökuþórinn í liðinu, þá verður spennandi að sjá hvort þeir geta tekið skrefið nær þeim bestu. Og síðan er Fernando Alonso, ein stærsta stjarna Formúlu 1 í seinni tíð, kominn aftur og til liðs við Renault-liðið, sem nú keppir undir nafninu Alpine, þar sem hann vann síðustu tvo heimsmeistaratitla sína árið 2005 og 2006 - kannski færast þeir nær toppliðunum í ár?

„Það er virkilega gaman að fá aftur að taka þátt í því að færa Íslendingum skemmtilegustu íþrótt í heimi. Ég er mjög spenntur fyrir því að byrja og metnaðurinn greinilega mikill hjá Viaplay, umgjörðin er flott og útsendingarnar bjóða ekki eingöngu upp á hefðbundna útsendingu heldur fleiri valmöguleika eins og að fylgjast með innanúr bílum og fá allar upplýsingar varðandi tíma og þjónustuhlé, þannig geta áhorfendur valið hvað þeir horfa á og stýrt eigin upplifun.Áhuginn á formúlunni virðist líka vera að vaxa með hverjum deginum, Drive to survive hefur keyrt nýjan áhorfendahóp og keppnirnar í fyrra voru með besta móti. Það skemmir svo ekki fyrir að það stefnir allt í svakalegan slag á toppnum og ef Lewis Hamilton nær að landa sínum áttunda titli núna í haust, þá verður það sá erfiðasti hingað til, æfingarnar gefa til kynna að Red Bull og Verstappen séu í raun hraðari, en það kemur allt í ljós um næstu helgi hvar allir standa í raun og veru, ég get ekki beðið,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, Formúlu 1 sérfræðingur Viaplay á Íslandi.

Formúla 1 hafði áður gefið út að þar á bæ yrði áfram lögð höfuðáhersla á öryggi í tengslum við Covid-19, en að þeir vonuðust til þess að hægt væri að koma hlutunum í einhvers konar eðlilegra horf á einhverjum tímapunkti keppnistímabilið 2021. Formúla 1 væntir þess því að á meðan keppnistímabilinu stendur yfir geti áhorfendur snúið aftur á áhorfendapallana.

Hér fyrir neðan má sjá nýjustu uppfærslu keppnisdagatalsins í Formúlu 1:

         Dagsetning                                 Keppni

 • 26.-28. mars                    Barein-kappaksturinn
 • 16.-18. apríl                   Emilia Romagna-kappaksturinn
 • 30. apríl - 2. maí              Portúgalski kappaksturinn
 • 7.-9. maí                       Spánarkappaksturinn
 • 21.-23. maí                     Mónakókappaksturinn
 • 4.-6. júní                      Kappaksturinn í Aserbaísjan
 • 11.-13. júní                    Kanadíski kappaksturinn
 • 25.-27. júní                    Franski kappaksturinn
 • 2.-4. júlí                      Austurríski kappaksturinn
 • 16.-18. júlí                    Breski kappaksturinn
 • 30. júlí-1. ágúst               Ungverski kappaksturinn
 • 27.-29. ágúst           Belgíski kappaksturinn
 • 3.-5. september         Hollenski kappaksturinn
 • 10.-12. september               Ítalski kappaksturinn
 • 24.-26. september               Rússneski kappaksturinn
 • 1.-3. október                   Kappaksturinn í Singapúr
 • 8.-10. október          Japanski kappaksturinn
 • 22.-24. október         Bandaríski kappaksturinn
 • 29.-31. október         Mexíkókappaksturinn
 • 5.-7. nóvember          Brasilíukappaksturinn
 • 19.-21. nóvember                Ástralski kappaksturinn
 • 3.-5. desember          Kappaksturinn í Sádí-Arabíu
 • 10.-12. desember                Kappaksturinn í Abú Dabí
Stikkorð: 1  • Formúla