*

Ferðalög & útivist 6. september 2013

Kertahótel á Tælandi

Í stað þess að standa í biðröð við innritunarborð fá gestir köld handklæði, blóm og í móttökunefndinni eru 2000 kerti á Ritz-Carlton í Tælandi.

Draumur þeirra sem elska kertaljós og hata innritunarborð ætti að rætast á Ritz-Carlton hótelinu við Phulay flóa í Tælandi.

Þegar rökkva tekur um sexleytið á kvöldin fara starfsmennirnir af stað og kveikja á tvö þúsund kertum við inngang hótelsins.

Athöfnin tekur um hálftíma en nákvæmlega klukkan hálfsjö skellur myrkrið á. Kertin loga í um tvær klukkustundir og þykja hin huggulegustu þegar fólk röltir inn og út af hótelinu.

Hönnun anddyrisins á að minna á tælenskt musteri. Í því er lítil tjörn og viðarskúlptúr. Þegar gestir koma á hótelið í fyrsta skipti fá þeir sítrónudrykk með engifer og köld handklæði. Og konurnar fá að auki blóm. Síðan tekur framkvæmdastjóri hótelsins á móti þeim og þeir eru kynntir fyrir einkaþjóni sínum.

Gestum á Ritz-Carlton er þar að auki hlíft við tölvum og skrifborðum eins og á öðrum hótelum þegar fólk þarf að innrita sig en þeim er í staðinn fylgt inn í villur sínar þar sem er gengið frá innritun. The Telegraph segir frá þessum huggulegheitum á vefsíðu sinni. 

 

 

 

 

Stikkorð: gleði  • Tæland  • Huggulegt  • Ritz-Carlton