*

Bílar 12. ágúst 2017

Keypti 30 milljóna ofursportbíl

Ólafur Björn Ólafsson hefur selt bíla í rúma þrjá áratugi. Hann hefur bæði flutt inn bíla og selt bíla úr landi.

Ég hef starfað í bílageiranum 33 ár og bæði flutt bíla inn og út úr landinu. Ég hef átt yfir þúsund bíla sem ég hef eignast og selt hér heima. Ef þú ferð inn í tölvuna hjá Samgöngustofu þá sérðu mörg hundruð bíla á minni kennitölu í gegnum árin. Ég er haldinn gríðarlegri bíladellu síðan ég man eftir mér. Ég var bara kornungur þegar ég fór að spá í bíla og kaupa og selja þá,“ segir Ólafur.

Vandaðra regluverk í bílainnflutningi

,,Í þessi 33 ár er ég oft búinn að vera í slag við sýslumenn og tollayfirvöld en þetta hefur nú róast með árunum,“ segir hann og brosir. ,,Í dag finnst mér allt orðið manneskjulegra í þessum samskiptum. Það er orðið vandaðra og strangara regluverk í skráningum bifreiða sem er af hinu góða. Þetta er skemmtilegur bransi. Allt sem ég geri hef ég gert í eigin nafni og staðið og fallið með því. Ég hef verið búsettur í Lúxemborg og á Íslandi síðan um aldamótin. Ég er samt meirihlutann af árinu úti í Lúxemborg. Ég kaupi mikið af nýjum og notuðum bílum í Belgíu, Lúxemborg og Frakklandi og flyt svo hingað til lands. Ég var einnig talsvert að kaupa í Þýskalandi en hef minnkað það aðeins. Ég hef flutt inn rúmlega 100 bíla til Íslands á þessu ári en hef selt um 400 bíla á milli landa í Evrópu og víðar um heiminn,“ segir hann.

Fólk er varkárara og upplýstara 

Ólafur segir að margt hafi breyst hjá fólki sem er í kauphugleið­ingum varðandi innflutta bíla. ,,Mér finnst að fólk sé varkárara og upplýstara en áður. Það spáir meira í verð og notagildi nú. Áður voru allir að leita að notuðum innfluttum bílum en í dag er miklu meira um að verið sé að biðja um nýja innflutta bíla. Fólk er yfirleitt að spá í sömu bíla og eru í boði hjá umboðunum. Það vill þá gera verðsamanburð á innfluttum bílum sem ég get komið með til landsins og þá sem eru hjá umboðunum. Umboðin hér ná oft góðum samningum úti og þá er erfitt að keppa við þau. Oft eru umboðin því að bjóða bíla ódýrari en ég get boðið en í mörgum tilvikum get ég líka boðið ódýrari verð en umboðin. Þetta fer svolítið eftir tegundunum,“ segir Ólafur.

,,Mér finnst Plug-in Hybrid bílar vera mjög vinsælir núna. Fólk er að spá í hversu lítið hann eyðir og mengar. Plug-in Hybrid bílar eins og rafbílar bera engin vörugjöld. Ef maður ber saman nýja Audi Q7 e-tron jeppann í Plug-in Hybrid við sama bíl með dísilútfærsluna þá er Plug-in Hybrid mun ódýrari og þar með mun hagstæðari í kaupum. Ég fæ oft símtöl um hvort ég geti flutt inn nýja bíla sem eru að koma á markað í haust. Og það er allt mögulegt í þessum geira.“ Ólafur segist einungis flytja inn bíla sem eru í fullri verksmiðjuábyrgð. ,,Það er mislöng ábyrgð eftir framleiðendum allt frá 2-5 ár. Svo er hægt að kaupa aukaábyrgð á bílana.“

Í hundraðið á 4 sekúndum 

Ólafur keypti nýverið hinn magnaða Mercedes-AMG GT sportbíl sem var aðalstjarnarn á mikilli AMG sýningu sem Askja hélt í vor. Viðskiptablaðið tók þennan bíl í reynsluakstur nýverið. Ólafur segist hafa fallið fyrir bílnum.

Undir vélarhúddinu kraumar fjögurra lítra V-8 vél sem skilar feikilegu afli eða alls 476 hest­ öflum. Hámarkstog bílsins er alls 630 Nm. Bíllinn þeytist úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4 sekúndum. Hámarkshraði bílsins er skráður 304 km. Bíllinn er metinn á um 30 milljónir króna og hann er alger vinnuhestur.

Ólafur hefur átt mikinn fjölda flottra bíla í gegnum árin. ,,Ég hef átt nýjan Ferrari og nýlegan Aston Martin sem ég hafði í Lúxemborg. Þessi nýi MercedesAMG GT er samt sá besti sem ég hef átt. Þessi er alger draumur í akstri. Hann er svakalega stöðugur og liggur afar vel þótt honum sé ekið á miklum hraða. Hann er með frábæra aksturseiginleika. Mér finnst þessi bíll alveg rúlla upp öðrum sportbílum sem ég hef átt og hef ég nú átt þá nokkra. Ég býst við að flytja hann út til Lúxemborgar síðar á árinu því þetta er bíll sem er ekkert gaman að aka í vetrarakstri hér heima og raunar hvergi. Þetta er bíll sem nýtur sín best á góðum hraðbrautum í lengri akstri.“ 

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu hér.