*

Menning & listir 28. mars 2013

Keypti dýrasta málverkið

Sama konan sat fyrir hjá Pablo Picasso þegar hann málaði verðmætustu verkin.

Steven Cohen, einn af virtari sjóðsstjórum Bandaríkjanna, keypti nýverið málverkið Draumurinn eða Le Réve eftir Pablo Picasso. Kaupverðið er sagt nema 155 milljónum dala, jafnvirði 19,2 milljarða íslenskra króna. Þetta ku vera hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir listaverk í Bandaríkjunum. Hæsta verðið greiddi listunnandi fyrir verkið Nekt, græn lauf og brjóst (e. Nude, green leaves and bust) eftir Picasso árið 2010. Það var á sínum tíma næsthæsta verðið sem greitt hafði verið fyrir verk í listheiminum. Cohen stýrir vogunarsjóðnum SAC Capital Advisors og er hann einn af helstu listaverkasöfnurum heims.

Erlendir fjölmiðlar á borð við Financial Times benda á að Cohen hafi keypt verkið í beinni sölu af fyrri eiganda. Sá er milljarðamæringurinn Steve Wynn, sem á fjölda spilavíta í Las Vegas. Hann er jafnframt ötull listaverkasafnari en í safni hans má m.a. finna verk eftir Paul Cézanne, Gauguin, van Gogh, Henri Matisse og Warhol. Alfræðivefurinn Wikipedia segir um safn Wynn að lykilverkið í safninu hafi verið Le Réve, sem nú er komið í eigu annars safnara. 

Reyndar munaði litlu að Cohen hefði keypt verið af Wynn árið 2006. Financial Times rifjar hins vegar upp að ástæðan fyrir því að salan gekk ekki í gegn á sínum tíma var sú að Wynn er með lélega sjón og olli skemmdum á verkinu fyrir mistök þegar hann reif gat á strigann þegar hún rak annan olnbogann í gegnum verkið. Salan gekk til baka en verkið var lagað. 

Sautján ára á föstu

Picasso málaði Le Rêve árið 1932. Fyrirsætan var hin kornunga Marie-Thérèse Walter, ástkona málarans frá 1927 til 1935 og barnsmóðir en saman eignuðust þau dóttur. Hún var aðeins 17 ára þegar samband hennar við Picasso hófst. Hann var hins vegar 45 ára, giftur rússneskum balletdansara og átti þá með henni fimm ára dreng. Upp úr sambandi þeirra Picasso og Marie-Thérése Walter slitnaði árið 1935 þegar málarinn tók upp samband við enn eina ástkonuna. Myndir af Marie-Thérése Walter má finna á fleiri myndum PIcasso en hún sat sömuleiðis fyrir þegar hann málaði Nekt, græn lauf og brjóst sama ár og Le Réve. 

Stikkorð: Pablo PIcasso