*

Matur og vín 14. mars 2014

KFC: Góður kjúklingur en slakar franskar

Eftir vinnu kíkti á nokkra skyndibitastaði í borginni.

Lára Björg Björnsdóttir

Matarrýnir Eftir vinnu fór í heimsókn á KFC.

Maturinn: Einn helsti kosturinn við KFC er úrvalið en það er hægt að heimsækja staðinn reglulega án þess að borða alltaf það sama. Öllu líklegra er að fólk fái smá valkvíða. Hægt er að raða saman alls konar kjúklingabitum, kjúklingaborgurum eða vefjum og velja á milli nokkurra tegunda af meðlæti.

Almennt séð stendur maturinn á KFC fyrir sínu en aðalsmerki staðarins er að sjálfsögðu djúpsteiktur kjúklingur. Kjúklingabitarnir eru oftast nær safaríkir og bragðgóðir og það er augljóst að hráefnið er gott. Hotwings bitarnir eru stökkir og hæfilega bragðsterkir. Að mati matarrýnis eru kjúklingaborgararnir besti rétturinn á KFC. Punkturinn yfir i-ið þar er kartöflukakan sem liggur ofan á kjúklingabringunni. Meðlætið á KFC er misgott. Maísstöngullinn stendur upp úr, hann er safaríkur og bragðgóður. Hrásalatið er klassískt hrásalat sem kemur ekki á óvart og er ekkert sérstaklega eftirminnilegt en ágætlega bragðgott og grænmetið er hæfilega stökkt. Frönsku kartöflurnar valda aftur á móti vonbrigðum, þær eru því miður alltof þurrar og bragðlitlar.

Þjónustan: Staðurinn sem oftast var heimsóttur að þessu sinni er nýr veitingastaður KFC í Sundagörðum 2. Þjónustan þar er áberandi hröð og viðmótið persónulegt sem er aldeilis ekki alltaf raunin á skyndibitastöðum. Dæmi: Ég bað um vatn með máltíð í einni heimsókninni. Viku síðar heimsótti ég staðinn aftur og þá var ég spurð að fyrra bragði, af sömu brosandi afgreiðslukonunni, hvort ég vildi vatn. Þetta er nú aldeilis huggulegt og vel af sér vikið þegar litið er til þess að þetta er skyndibitastaður sem afgreiðir fólk á færibandi allan liðlangan daginn og langt fram á kvöld. Staðurinn fengi fjórar stjörnur af fimm ef ekki væri fyrir franskarnar.

Nánar er fjallað um veitingastaðinn KFC, Aktu taktu, Búlluna, og Subway í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu 6. mars. Þar er farið nákvæmlega yfir einstaka rétti og einnig fjallað um þjónustu á viðkomandi stöðum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Stuð  • KFC  • Namm