*

Bílar 1. september 2012

Kia frumsýnir Optima og cee'd í dag

Optima er í boði í þremur útfærslum eins og nýju Kia cee'd bílarnir.

Bílaumboðið Askja frumsýnir tvo Kia bíla í dag kl. 12-16. Hér um að ræða Kia Optima og Kia cee'd. Báðir  hafa nú þegar fengið góða einkunn fjölda bílablaðamanna víða um heim auk fjölda verðlauna fyrir fallega hönnun.

,,Við höfum skynjað mikla eftirvæntingu og það hefur verið mikill spenningur að fá þessa bíla til landsins. Við höfum þegar fengið fjölda eftirspurna frá viðskiptavinum," segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Öskju.

Optima er nýr bíll í D-flokki frá suður-kóreska bílaframleiðandanum sem er einn sá mest vaxandi í heimi um þessar mundir. Optima er stór og stæðilegur fjölskyldubíll með sportlegt útlit og aksturseiginleika. Innanrýmið þykir mjög fallegt þar sem efnisnotkun er vönduð og tækjabúnaður ríkulegur.

Optima er í boði í þremur útfærslum sem eru allar með 1,7 lítra dísilvélum sem skila 136 hestöflum. Hann verður bæði fáanlegur beinskiptur og sjálfskiptur í EX útfærslu og þá verður hann einnig í boði í Premium útgáfu sem er feiknalega vel búinn bíll. Sá er með Panorama þaki, bakkmyndavél, LED ljósum að framan og aftan, 18 tommu álfelgum, LCD mælaborði og leðursætum svo eitthvað sé nefnt. Optima eyðir frá 5,1 lítra áhundraðið í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá Kia. Optima kostar frá 4.790.777 kr. en Premium útgáfan kostar 6.090.777 kr.

Cee'd vinsælasti bíll Kia

Hinn nýi Kia cee'd er önnur kynslóð þessa vinsæla bíls en Kia cee'd er mest seldi bíll Kia frá upphafi. Þrjár útfærslur af hlaðbaknum verða í boði og allar með dísilvélum. Hér er um að ræða 1,4 lítra LX, beinskiptur sem skilar 90 hestöflum. Einnig er í boði 1,6 lítra EX beinskiptur sem skilar 128 hestöflum og loks 1,6 lítra EX með 6 þrepa sjálfskiptingu sem skilar 128 hestöflum. Allar vélarnar eru talsvert sparneytnari og umhverfismildari en í fyrri gerð.

Nýju Kia cee'd bílarnir hafa breyst mikið í útliti og aksturseiginleikum, auk þess sem þeir er búnir nýjum aflmiklum en um leið eyðslugrönnum og umhverfismildum vélum. Falleg díóðuljós munu nú einkenna cee'd að framan auk þess sem bíllinn er lengri og breiðari en forverarnir og 1 sm. lægri. Nýr cee'd kostar frá 3.385.777 kr. Bílarnir verða sem fyrr segir frumsýndir í Bílaumboðinu Öskju að Krókhálsi 11 á laugardaginn 1. september kl. 12-16. 

Stikkorð: Kia