*

Bílar 19. mars 2021

Kia kynnir nýja hönnun með EV6

Kia EV6, sportlegur jepplingur, verður fyrsti bílinn af nýrri kynslóð rafbíla Kia.

Þessi nýja hönnunarlína suður-kóreska bílaframleiðandans kemur fram í nýjum bíl Kia EV6 sem er fyrsti bíllinn af nýrri kynslóð rafbíla Kia.

Kia hefur löngum lagt mikið upp úr hönnun bíla sinna og liður í því var að fá til liðs við sig þýska bílahönnuðinn Peter Schreyer fyrir rúmum áratug. Hann hefur heldur betur sett mark sitt á hönnun bíla Kia. Þessi nýja hönnunarheimspeki Kia sækir í andstæður sem finnast í náttúrunni og orku hennar samkvæmt upplýsingum frá Kia. Hönnunin er djörf og framsækin í takt við þær spennandi nýjungar sem rafbílar kalla fram.

Kia EV6 er sportlegur jepplingur og 100% hreinn rafbíll. Þetta er fyrsti bíll Kia sem byggður er á nýjum og háþróuðum E-GMP undirvagni (Electric-Global Modular Platform) sem er sérstaklega hannaður fyrir rafbíla. Þessi nýi undirvagn verður notaður í næstu kynslóðir Kia rafbíla. Nýr Kia EV6 verður heimsfrumsýndur síðar í mánuðinum. Kia hefur einnig kynnt nýtt nafnakerfi á rafbíla sína. Þeir munu allir heita EV og síðan mun tölustafur fylgja á eftir.

Stikkorð: Peter Schreyer  • Kia EV6