
Kia kynnti nýjasta bíl sinn á bílasýningunni í Genf í gær. Um er að ræða nettan sportjeppa sem fengið hefur nafnið Niro.
Það merkilegasta við Niro er að hann er með Hybrid tækninni eða svokallaður tvinnbíll. Kia býður reyndar upp á Optima í Hybrid útfærslu auk hefðbundinnar gerðar og nú bætist Niro í tvinnbílahópinn.
Þessi netti sportjeppi hefur verið lengi á teikniborðinu hjá suður-kóreska bílaframleiðandanum. Niro var kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt árið 2013 en er nú kominn í framleiðslu.
Hann er aðeins minni að stærð en Kia Sportage, sem er vinsælasti sportjeppi bílaframleiðandans. Niro er með 1,6 lítra bensínvél og rafmótora og á að menga minna en 90g/km.