*

Bílar 13. febrúar 2019

Kia og Suzuki unnu til verðlauna

Kia vann þrefaldan sigur á alþjóðlegu iF Design Awards og Suzuki var útnefnt besta bílamerkið í ánægjuvog UKCSI í Bretlandi.

Kia og Suzuki unnu bæði til verðlauna nú á dögunum. Kia vann þrefaldan sigur á alþjóðlegu iF Design Awards og Suzuki var útnefnt besta bílamerkið í ánægjuvog UKCSI í Bretlandi.

Kia fékk hönnunarverðlaun fyrir allar þrjár tegundirnar af hinum nýja Kia Ceed en þriðja kynslóð þessa vinsæla fólksbíls var frumsýnd nýverið. Allar þrjár útfærslurnar af Ceed, hinn hefðbundni 5 dyra hlaðbakur, Sportswagon og ProCeed unnu allar til hinna eftirsóttu iF verðlauna. Sportswagon er í skutbílsútfræslu en ProCeed í svokallaðri Shooting Brake útfærslu. Alls 6.400 vörur frá fyrirtækjum í 50 löndum voru til umfjöllunar á iF verðlaununum í ár. Alls 67 hönnunarsérfræðingar voru í dómnefndinni.

Kia hefur unnið til fjölda alþjóðlegra hönnunarverðlauna undanfarin ár fyrir bíla sína. Kia hefur átt mjög góðu gengi að fagna á iF hönnunarverðlaununum. Kia hefur unnið alls 18 IF verðlaun síðan árið 2010 og þrívegis unnið þrennu eins og nú.

Suzuki efst í breskri ánægjuvog

Suzuki hefur verið útnefnt besta bílamerkið í ánægjuvog UKCSI í Bretlandi. UKCSI er rannsóknastofnun í Bretlandi sem byggir niðurstöður sínar á reynslu 45.000 neytenda af vörum og þjónustu í ýmsum greinum, þar á meðal bílgreininni. Suzuki varð í 1. sæti af 24 bílframleiðendum og í 15. sæti af 259 fyrirtækjum í 13 greinum. Reynsla neytenda af umboðsaðilum Suzuki var sú að þeir væru þægilegir og hreinskiptnir í samskiptum og að treysta mætti vörumerkinu betur en öðrum vörumerkjum.