*

Bílar 4. október 2021

Kia söluhæst fólksbíla

Yfir 1.500 Kia bílar hafa verið nýskráir á fyrstu 9 mánuðum ársins, af 9.817 bílum alls. Toyota er einnig yfir 1.500.

Róbert Róbertsson

Alls voru 9.817 nýskráðir fólksbílar á fyrstu 9 mánuðum ársins. Þetta er 37,1% söluakning frá síðasta ári en þá voru alls 7.161 nýskráningar á sama tímabili samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Kia er söluhæst fólksbíla á Íslandi það sem af er á árinu. Alls hafa 1.553 Kia bílar verið nýskráðir á fyrstu 9 mánuðum ársins. Toyota er í öðru sætinu með 1.541 nýskráða bíla. Hyundai er í þriðja sætinu með 785 nýskráða bíla, Tesla í fjórða sæti með 785 og Suzuki í fimmta með 748 og Volkswagen er í sjötta sætinu 567 nýskráða bíla.

Mercedes-Benz er söluhæsta þýska lúxusbílamerkið með 284 nýja bíla á árinu. Kia er með alls 15,8% markaðshlutdeild og Toyota með 15,7% markaðshlutdeild þannig að saman eru þessi tvö asísku bílamerki með rúmlega 30% markaðshlutdeild nýrra fólksbíla á fyrstu níu mánuðum ársins og eru í sérflokki raunar í sölu.

Bílar til almennings eru 59% af nýskráningum á fyrstu 9 mánuðum ársins en 39,9% til bílaleiga. Bensínbílar eru 18,9% af nýskráningum, dísilbílar 13%, rafbílar 24,2%, Hybrid 20.1% og tengiltvinnbílar 23.8%.

BL er söluhæsta bílaumboðið á fyrstu 9 mánuðum ársins með 2.082 nýjá bíla, Askja er í öðru sætinu með 1.993 nýja bíla og Toyota í því þriðja með 1.585 nýja bíla. Í fjórða sæti er Brimborg með .1.178 nýja bíla Hekla er í fimmta sæti með 1.171.

Stikkorð: Bílgreinasambandið  • Kia