*

Bílar 17. febrúar 2016

Kia Sportage söluhæstur

Ný kynslóð Sportage sportjeppans verður frumsýnd hér á landi næstkomandi laugardag.

Kia Sportage er söluhæsti bíll suður-kóreska bílaframleiðandans Kia í Evrópu frá upphafi. Ný kynslóð sportjeppans verður frumsýnd hér á landi nk. laugardag.

Breytingarnar á sportjeppanum eru miklar á milli kynslóða bæði að innan og utan. Útlitsbreytingarnar eru mjög greinilegar. Aðalljósin eru staðsett ofar en áður og þokuljósin eru stór og áberandi. Hliðarnar eru með sterkari línum en í forveranum og hjólskálaumgjörðirnar eru meira áberandi.

Lengra er á milli fram- og afturhjólanna sem undirstrikar sportlegar línur bílsins. Þá er talsvert meiri búnaður í nýja bílnum m.a. nýja Dynamax fjórhjóladrifiskerfið. Það gerir fjórhjóladrifi bílsins kleift að aðlaga sig að nýjum akstursaðstæðum áður en þær breytast og mun grípa leiftursnöggt inn í ef þörf er á.

Sportage verður í boði í ýmsum vélarútfærslum en mest áhersla er lögð á tveggja lítra dísilvélina sem skilar 136 hestöflum. Sportage hefur verið vinsælastur með þessari vélarstærð búinn sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi. Sportjeppinn verður einnig í boði framhjóladrifinn með beinskiptingu með 115 hestafla vél og einnig verður beinskipting í boði í 136 hestafla útfærslunni en þannig er hann fjórhjóladrifinn.

Þá verður Sportage auk þess í boði með 1,6 lítra bensínvél með túrbínu sem skilar 177 hestöflum. Sportage kemur með taslvert mikinn staðalbúnað sem er þó mismikill eftir útfærslum. Þá verður hægt að fá sportjeppann í sérstakri GT-line útfærslu sem gerir bílinn sportlegri í útliti og búnaðurinn er þá mjög mikill m.a. glerþak, JBL hljómkerfi, 8" skjá, HID beygjuljós, sjálfvirka opnun á afturhlera.

Nýr Sportage var hannaður í hönnunarstúdíói Kia í Frankfurt og framleiddur í verskmiðju Kia í Zilina í Slóvakíu, sem sýnir vel að bíllinn er miðaður við Evrópumarkað. Hann verður frumsýndur hjá bílaumboðinu Öskju á laugardag kl. 12-16 og hjá söluaðilum Kia um allt land. Boðið verður upp á fría 7 punkta skoðun fyrir Kia eigendur á laugardag auk 20% afslátts af auka- og varahlutum.

Stikkorð: Bílar  • Kia  • Sportage