*

Menning & listir 18. mars 2020

Kíki fer í partýpásu og betrumbætir

Kiki Queer Bar ætlar að koma með stærsta „comeback“ partý sögunnar þegar staðurinn opnar á ný eftir lok samkomubanns.

Skemmtistaðurinn Kiki Queer Bar á horni Laugarvegs og Klapparstígs hyggst loka meðan á samkomubanni vegna útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar stendur og nýta tímann í framkvæmdir.

Segja þeir að gleðin geti orðið hömlulaus á staðnum og þannig vilji þeir hafa haa, og því gætu leiðbeiningar um tveggja metra andrými milli gesta að lágmarki reynst staði eins og þeim að fylgja.

Því verði tækifærið nýtt til betrumbóta og svo komi staðurinn aftur með stærsta endurkomu, eða eins og það er orðað upp á ensku „comeback“ partý sögunnar.

Hér má sjá tilkynningu staðarins í heild sinni:

Eins og við öll vitum er KIKI staður þar sem fólk kemur saman og skemmtir sér, dansar af sér rassinn, syngur með, horfir á dragsýningar og almennt sleppir af sér beislinu. Þannig hefur það verið og þannig mun það vera um ókomin ár.  
Á KIKI getur gleðin orðið hömlulaus, þannig er KIKI og þannig viljum við hafa KIKI

Tímabundið samkomubann á Íslandi hefur ekki farið framhjá nokkrum manni en viðmið samkomubannsins gerir kröfu um lágmark tveggja metra andrými milli gesta. Það gætu reynst erfiðar leiðbeiningar að fylgja á stað eins og okkar.

Með hag og heilsu gesta okkar og starfsfólks að leiðarljósi höfum við tekið þá erfiðu ákvörðun að hafa KIKI lokaðann þar til stjórnvöld gefa grænt ljós á taumlausa gleði aftur.

Við ætlum alls ekki að sitja með hendur í skauti þennan tíma heldur nýta hann til betrumbóta á KIKIi, rífa upp málningarúllurnar, slípirokkana og setja allar tuskur á loft til að gera staðinn enn betri fyrir okkur öll.  Við munum halda stærsta comeback  partý sögunnar þegar þessu óveðri slotar !

Endilega farið vel með ykkur, hugsið um hvort annað og fyrr en varir munum við dansa eins og enginn sé morgundagurinn.

Rafrænt knús og handsprittaðir loft-kossar frá okkur!

Eigendur og starfsfólk KIKI

Stikkorð: dans  • lokun.  • Kiki Queer Bar