*

Sport & peningar 14. febrúar 2016

Kína kallar

Kína gerir nú allt sem í sínu valdi stendur til að stimpla sig inn sem stórveldi í vinsælustu íþrótt heims.

Kína er langfjölmennasta land heims með tæplega 1,4 milljarða íbúa. Efnahagur landsins hefur vaxið hratt undanfarin ár en knattspyrna hefur þó aldrei náð mikilli fótfestu þar í landi. Eina skiptið sem Kína var með á HM var árið 2002 og þá tapaði liðið öllum leikjum sínum í riðlakeppninni. Jafnvel hörðustu knattspyrnuaðdáendur ættu erfitt með að nefna einn kínverskan fótboltamann, enda spiluðu allir leikmennirnir í síðasta landsliðshóp í heimalandinu nema einn. Þrátt fyrir að 4.250 Kínverjar séu til fyrir hvern Íslending er Kína í 93. sæti heimslista FIFA á meðan Ísland er í 38. sæti.

Andrúmsloftið virðist hins vegar vera að breytast. Fótbolti er vinsælasta íþrótt heims og Kínverjar vilja fá sína sneið af kökunni. Það má segja að innrás þeirra í knattspyrnuheiminn hafi byrjað fyrir alvöru árið 2011 þegar Shanghai Shenhua fékk þá Didier Drogba og Nicolas Anelka í sínar raðir frá Chelsea. Þeir entust hins vegar afar stutt í Kína og var þá talað um misheppnaða tilraun.

20 þúsund á völlinn

Þó virðist sem áramótaheit forseta alþýðulýðveldisins, Xi Jinping, hafi verið að gera kínversku deildina að alvöru deild á árinu 2016. Hann er mikill fótboltaáhugamaður og hefur hjálpað til við að búa til kringumstæður sem gera knattspyrnufélögum kleift að vaxa. Stórfyrirtæki, sem mörg hver eru ríkisrekin, eru farin að dæla peningum í fótboltann í formi auglýsingasamninga. Risastórir leikvangar rísa og mikið er gert til að auka áhuga almennings á íþróttinni. Yfir 20.000 manns mæta að meðaltali á leik í kínversku Ofurdeildinni og það er ekki langt frá tölum sem finnast í Frakklandi og Ítalíu. Nú eru félögin farin að horfa mikið erlendis með veskin á lofti og eru farin að laða að sér leikmenn sem enginn hefði ímyndað sér að myndi spila í Kína.

Helsta breytingin er að ólíkt bandarísku MLS-deildinni er sú kínverska að lokka til sín leikmenn sem eru á hápunkti ferilsins. MLS-deildin hefur verið í miklum vexti undanfarið frá því að hún laðaði David Beckham til LA Galaxy og í kjölfarið hafa fylgt stórstjörnur á borð við Steven Gerrard, Frank Lampard, Andrea Pirlo o.fl. Þeir leikmenn eru hins vegar á lokaspretti ferilsins og væru hugsanlega ekki nógu góðir til að gegna lykilhlutverkum hjá stórliðum í bestu deildum heims. Allt annað er hins vegar hægt að segja um leikmennina sem farið hafa til Kína undanfarnar vikur.

Allan janúarmánuð var Brasilíumaðurinn Alex Teixiera orð- aður við enska stórliðið Liverpool. Ekkert gekk hins vegar í samningaviðræðum Liverpool og úkra- ínska félagsins Shakhtar Donetsk og á endanum var Teixeira seldur til Jiangsu Suning í Kína í síðustu viku. Örfáum dögum áður hafði Jiangsu keypt samlanda hans Ramires frá Chelsea. Ramires var einn besti varnarsinnaði miðjumaður heims þó hann hafi ekki alltaf átt fast sæti í liði Chelsea en hann var tilbúinn að fara til Kína. Samtals kostuðu þessir leikmenn yfir 60 milljónir punda! Jiangsu hafði einmitt fyrr í mánuðinum losað sig við þá Viðar Örn Kjartansson og Sölva Geir Ottesen því einungis mega fjórir útlendingar vera í byrjunarliði kínverskra liða. Ekki kæmi á óvart þó að þeirri reglugerð yrði breytt fljótlega.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.

Stikkorð: Kína  • Knattspyrna  • Kína