*

Bílar 13. nóvember 2012

Kínverjar stefna Qoros C11 á Evrópumarkað

Fyrsti kínverski bíllinn gæti komið á göturnar í vor. Þjóðverji teiknaði bílinn.

Róbert Róbertsson

Kínverski bílaframleiðandinn Qoros mun vera kominn langleiðina með nýjan bíl sem ætlaður er til sölu í Evrópu, sem og í heimalandinu. Bílinn sem fengið hefur nafnið C11 er í C-stærðarflokki og verður frumsýndur á bílasýningunni í Genf næsta vor. Þetta verður að öllum líkindum fyrsti kínverski bíllinn sem kemur inn á evrópska markaðinn. 

Qoros-bílafyrirtækið er í eigu Chery Automotive og Israel Corporation. C11 bíllinn er teiknaður í Evrópu af Þjóðverjanum Gert Volker Hildebrand. Bíllinn er hannaður og framleiddur til að standast ströngustu öryggisprófanir sem Euro NCAP setur upp og það verður honum ekki að falli við að komast á evrópskan markað. Bíllinn hefur sést í reynsluakstri í felulitunum og lofar nokkuð góðu af myndum að dæma. Bíllinn mun vera með óvenju gott innanrými og hlaðinn tæknibúnaði.

Verksmiðjan sem framleiða mun bílinn er í byggingu og á hún að afkasta 150.000 bílum á ári. Verksmiðjan hefur verið hönnuð með þann sveigjanleika að geta tekið til framleiðslu nýja gerð bíla á sex mánaða fresti og með því er búist við að fleiri útfærslur C11-bílsins verði kynntar fljótlega í kjölfarið, þar á meðal tvinnbíll og rafmagnsbíll.

Stikkorð: Qoros