*

Ferðalög & útivist 29. maí 2013

Kínversk stjórnvöld setja ferðamönnum frá Kína siðareglur

Kínversk stjórnvöld hafa gefið út siðareglur sem þau vilja að þegnar þeirra fari eftir á ferðalögum erlendis.

Að hrækja, kasta rusli á götuna, troðast fram fyrir raðir og eyðileggja ómetanlegar fornminjar er athæfi sem kínversk stjórnvöld vilja ekki sjá hjá kínverskum ferðamönnum. Stjórnvöld í Kína hafa því gefið út siðareglur sem þau ætlast til að þegnar þeirra fari eftir þegar þeir ferðast til útlanda. 

Reglurnar voru gefnar út á þriðjudaginn á heimasíðu stjórnvalda í Kína. Í þeim er einnig bannað að klifra upp á eða snerta eða höggva í fornminjar.

Tímasetningin hefur hugsanlega með ákveðið atvik í Lúxor að gera. En í vikunni bárust fréttir af því að ferðamaður frá Kína, 15 ára gamall drengur, hefði höggið nafnið sitt í 3500 ára stein í Lúxor í Egyptalandi. Málið vakti mikla athygli um allan heim en verstu útreiðina fékk drengurinn á samfélagsmiðlum í Kína.

Mei Zhang, framkvæmdastjóri og stofnandi ferðaskrifstofunnar WildChina vill ítreka að svona hegðun sé ekki dæmigerð fyrir kínverska ferðamenn og hneykslun samlanda hans, eins og sést á samfélagsmiðlum á netinu, staðfesti það.

En aftur að siðareglunum. Þar er líka lögð áhersla á að ganga snyrtilega um og sýna náunganum kurteisi.

Ferðamönnum frá Kína hefur fjölgað mikið síðustu ár. Árið 2012 fór Kína í fyrsta sætið yfir ferðamenn sem eyða mestu erlendis en þá ferðuðust 83 milljónir Kínverja og eyddu 102 milljörðum dala. CNN segir frá málinu á vefsíðu sinni í dag. 

Stikkorð: Kína  • Ferðalög  • Kína  • Dólgslæti  • Kurteisi