*

Matur og vín 7. desember 2018

Klóa-bjór Borgar endurvakinn sem Kappi

Brugghúsið Borg hefur endurvakið umdeildan súkkulaðibjór sem Mjólkursamsalan gerði athugasemdir við í sumar.

Brugghúsið Borg hefur gefið frá sér „kakó porter“ bjór sem ber nafnið Kappi. Leturgerð nafnsins er röndótt gul og dökkbleik, og minnir óneitanlega á kókómjólkurköttinn Klóa.

Brugghúsið gaf í sumar frá sér mjög svipaðan bjór, svokallaðan „kókó porter“, sem innihélt súkkulaðihismi frá súkkulaðigerðinni Omnom, rétt eins og sá nýi, en bar nafnið Klói, sem skrifað var með sömu leturgerð.

Mjólkursamsalan gerði athugasemd við notkun auðkennisins „Klói“, og fór þess á leit við brugghúsið að það léti af henni. Taldi samsalan notkunina fela í sér „óréttmæta viðskiptahætti sem [væru] til þess fallnir að afla félaginu viðskipta með ótilhlýðilegum hætti á kostnað áralangrar markaðssetningar MS.“

Árni Theodór Long, bruggmeistari hjá Borg, furðaði sig á viðbrögðunum, og sagðist „alltaf hafa verið meiri Kappa-maður“, en Kappi var súkkulaðimjólk sem var seld í beinni samkeppni við kókómjólk á 1. áratug þessarar aldar. Aldrei varð meira úr málinu, þar sem Klói var tímabundin framleiðsla og aðeins seldur á kútum til valinna öldurhúsa.

Nú hefur brugghúsið hinsvegar uppfært bjórinn og gefið út undir nafni fyrrum samkeppnisaðilans, með leturgerð sem svipar til kattarins, og lýsingunni „Súkkulaðihismi frá Omnom og vanilla – því það kallar á ósvikinn kattarslag.“

Stikkorð: Mjólkursamsalan  • Borg  • Klói  • Kappi  • kókómjólk
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is