*

Sport & peningar 28. nóvember 2019

Knattspyrnuveldi stækkar við sig

Eigandi Manchester City er orðið verðmætasta knattspyrnufyrirtæki heims og á nú hlut í átta knattspyrnuliðum.

City Football Group, sem er þekktast fyrir að vera eini eigandi enska knattspyrnuliðsins Manchester City hefur fest kaup á 65% hlut í indverska úrvalsdeildarliðinu Mumbai City. Þetta kemur fram í frétt BBC. Liðið sem stofnað var árið 2014 situr í sjöunda sæti í indversku úrvalsdeildinni þegar sjö leikjum er lokið. 

Mumbai City verður þar með áttunda liðið sem fyrirtækið festir kaup á hlut í. Fyrir á City Football Group 80% hlut í Bandaríska liðinu New York City FC sem leikur í MLS deildinni þar í landi, 100% hlut í ástralska úrvalsdeildarliðinu Melbourne City, 44,3% hlut í Girona sem leikur í næstefstu deild á Spáni, 20% hlut í japanska úrvalsdeildarliðinu Yokohama F. Marinos og 100% hlut úrúgvæska úrvalsdeildarliðinu Club Atlético Torque. Þá á fyrirtækið hlut í kínverska liðinu Sichuan Jiuniu en verðmætasta eign þess er án nokkurs vafa Manchester City. 

City Football Group er að stærstum hlut í eigu aðila úr konungsfjölskyldu Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Fyrr í vikunni var hins vegar greint frá því að bandaríski framtakssjóðurinn Silver Lake hefði fest kaup á rúmlega 10% hlut í fyrirtækinu fyrir 389 milljónir punda. Miðað við kaupverðið er fyrirtækið metið á um 3,73 milljarða punda sem gerir það að verðmætasta knattspyrnufyrirtæki heims miðað við markaðsverð. 

Til samanburðar er markaðsvirði Manchester United sem skráð er á hlutabréfamarkað í New York um 3 milljarðar dollara en markaðsvirði City Football Group miðað við kaup Silver Lake er um 4,8 milljarðar dollara.