*

Tölvur & tækni 10. febrúar 2012

„Kodak-mómentið“ heyrir sögunni til

Kodak Eastman er hættur að framleiða myndavélar. Fyrirtækið dró lappirnar í samkeppninni.

Bandaríska ljósmyndavörufyrirtækið Kodak Eastman er hætt að framleiða myndavélar. Þetta á jafnvt við um framleiðslu á stafrænum myndavélum, myndbandsupptökuvélum og stafrænum myndarömmum. Kodak Eastman sem framleiðir vélarnar óskaði eftir gjaldþrotavernd samkvæmt bandarískum gjaldþrotalögum fyrir tæpum mánuði. Fyrirtækið hætti framleiðslu á ljósmyndafilmum fyrir þremur árum.

Kodak Eastman var stofnað árið 1889 og var með allt upp undir 90% markaðshlutdeild á bandarískum ljósmyndamarkaði á mektarárunum á áttunda áratug síðustu aldar. Fyrirtækið hafði á árum áður talsvert forskot í stafrænni myndtækni en Kodak framleiddi fyrstu stafrænu myndavélina árið 1975. Stjórnendur fyrirtækisins töldu hins vegar markaðinn ekki tilbúinn fyrir stafrænu byltinguna og ákvað að leggja áfram áherslu á framleiðslu á filmur og myndavélar fyrir þær. Fyrirtækið glutraði svo forskotinu niður á tiltölulega stuttum tíma þegar tæknifyrirtæki á borð við Sony fóru að framleiða stafrænar myndavélar rétt fyrir síðustu aldamót.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian um málið að stjórnendur Kodak telji breytinguna geta skilað 100 milljóna dala sparnaði á ári. Heildarskuldir Kodak nema 6,8 milljörðum dala.

Kodak hefur þegar lokað 13 verksmiðjum og sagt upp 47 þúsund manns.

Stikkorð: Kodak