*

Tölvur & tækni 26. febrúar 2013

Kóði bendir til að áskriftarþjónusta Youtube sé í vændum

Kóðabrot í snjallsímaforriti Youtube rennir stoðum undir orðróm um að fyrirtækið muni fara að rukka fyrir áskrift að rásum.

Stoðum hefur verið rennt undir orðróm um að efnisveitan Youtube hyggist rukka fyrir áskrift að ákveðnum rásum á síðunni, jafnvel strax í vor. Orðrómurinn er ekki glænýr af nálinni, en í nýjustu útgáfu af Youtube snjallsímaforritinu hefur fundist kóðabrot sem ekki er enn orðið virkt. Í kóðabrotinu segir að aðeins sé hægt að greiða fyrir áskrift að viðkomandi rás á tölvu, en ekki í símanum.

Kóðabrotið lítur svona út: You can only subscribe to this paid channel on your computer.'

Stjórnendur Youtube hafa sjálfir ýjað að því að þeir vilji bjóða upp á áskriftarþjónustu. Rætt er um að áskriftarkostnaður verði á bilinu einn til fimm dalir á mánuði og í frétt Daily Mail segir að Google, sem á Youtube, hafi óskað eftir viðræðum við sjónvarpsþáttaframleiðendur um framleiðslu efnis fyrir rásirnar. Þá er rætt um að Youtube geti farið að rukka fyrir beinar útsendingar af tónleikum. Búist er við því að um tilraunaverkefni verði að ræða til að byrja með og að áskriftarrásirnar verði aðeins í kringum 25 talsins í upphafi.

Ef af verður mun Youtube bætast í hóp fyrirtækja eins og Netflix og Amazon sem þegar eru farin að keppa við hefðbundnar sjónvarps- og kapalstöðvar í framleiðslu og sölu á sjónvarpsefni.

Stikkorð: Sjónvarp  • Youtube