*

Bílar 26. mars 2016

Koenigsegg kynnir 1.500 hestafla ofurbíl

Nýjasti Koenigsegg bíllinn er búinn fjórum vélum, einni bensínvél og þremur rafmótorum.

Sænski sportbílaframleiðandinn Koenigsegg kynnti ofurbílinn Regera á bílasýningunni í New York fyrir helgi.

Markaðshlutdeild Koenigsegg hefur ekki verið mikil í Bandaríkjunum og hefur Regera verið markaðssettur vestra sem ennþá betri bíll en Bugatti, sem hefur mun sterkari stöðu á þeim markaði.

Regera er búinn fjórum vélum. Aðalvélin er 1.200 hestafla tvinntúrbó fimm lítra V8 bensínvél, sem tengd er einum rafmótor. Svo eru tveir rafmótorar tengdir afturhjólunum og saman framleiða þeir um 720 hestöfl. Segir Koenigsegg að þrátt fyrir að formlega sé bíllinn 1.500 hestöfl gæti raunverulegt afl hans verið nærri 1.800 hestöflunum.

Hámarkshraði bílsins er um 400 kílómetrar á klukkustund og það tekur hann aðeins 2,8 sekúndur að komast upp í hundraðið.

Stikkorð: Koenigsegg  • Sportbílar