*

Sport & peningar 20. apríl 2014

Kókaín hneyksli í uppsiglingu í Englandi

Starfsmenn knattspyrnufélags á Englandi sagðir hafa notað fíkniefni á útileik. Lögreglan rannsakar málið.

Stór knattspyrnuklúbbur á Englandi og hátt settir starfsmenn þar eru sagðir vera flæktur inn í fíkniefnahneyksli. Lögreglan hefur verið kölluð til að rannsaka málið eftir að starfsmenn fóru að gruna kollega sína um að vera að nota fíkniefni sem teljast til svokallaðs A-flokks fíkniefna í Englandi. Fíkniefnanotkunin er sögð hafa náð upp í efsta lag klúbbsins og er að minnsta kosti einn nafntogaður einstaklingur aðili að málinu. Fjallað er um málið á vef Guardian í dag.

Þar segir að tveir starfsmenn félagsins eigi að hafa verið teknir við að neyta kókaíns í stjórnarherbergi annars liðs þegar félagið keppti á útivelli. Orðrómur um þetta atvik hefur svo lekið út á meðal annarra félaga í deildinni. 

Félagið sem á í hlut hefur ekki verið nefnt á nafn af lagalegum ástæðum samkvæmt umfjöllun Guardian. Málið var tilkynnt til lögreglu og deildarinnar af félaginu og er málið í höndum lögreglunnar.