*

Matur og vín 23. apríl 2019

Kókdósirnar verða hærri og mjórri

Breytingar verða á umbúðum og merkingum bæði Coca-Cola sem og Coca-Cola án sykurs, sem áður hét Zero Sykur.

Coca-Cola gerir stórar breytingar á einu af stærstu vörumerkjum sínum þegar Coca-Cola Zero Sykur, klæðist hinum klassíska rauða lit og tekur upp nýtt nafn: Coca-Cola án sykurs. 

Magnús Viðar Heimisson, vörumerkjastjóri hjá Coca-Cola á Íslandi, eða Coca-Cola European Partners Íslandi,. tekur fram að innihaldið breytist ekki að öðru leyti. „Breytingunni er ætlað að auðvelda val fyrir neytendum sem velja sér nú einfaldlega Coca-Cola, með eða án sykurs,“ segir Magnús Viðar.

Dósirnar breytast líka

Á sama tíma verða breytingar á dósunum sjálfum, sem verða nú hærri og mjórri en áður. „Coca-Cola án sykurs verður auðmerkt með svartri línu efst á dósinni og svörtum hring á miða á plastflöskum auk þess sem tappinn verður svartur. Nýju dósirnar henta enn betur í ísskápinn og ekki síður í hendi. Þetta er nýjung á gosmarkaðinum hér á Íslandi, en enginn gosdrykkur er í svona dósum í dag.“

Coke Zero Sykur er sagt í fréttatilkynningu vera þriðja stærsta vörurmerkið á gosdrykkjamarkaðnum hérlendis. „Coke Zero Sykur er gríðarlega öflugt vörumerki og er þriðji stærsti gosdrykkurinn á íslenskum matvælamarkaði, samkvæmt AC Nielsen mælingum,“ segir Magnús Viðar.

„Það er því stærra en til að mynda Pepsi og Appelsín. Fólk hefur þó ekki alltaf áttað sig á því að Coke Zero Sykur sé alfarið sykurlaus vara en með þessari breytingu ætti valið að verða einfaldara: Þú velur þér einfaldlega kók með eða án sykurs, rétt eins og þú velur hvort vatnið þitt sé með eða án kolsýru,“ segir Magnús Viðar.

Coca-Cola er eitt þekktasta vörumerki heims en með þessari breytingu styrkist það ennfremur auk þess að aðlagast nýjum tímum. „Við staðsetjum sykurlausa valkostinn við hlið hins klassíska Coca-Cola í allri framsetningu og markaðssetningu. Framtíðin liggur í minni sykri, og Coca-Cola verður hluti af henni,“ segir Magnús Viðar.

Í fréttatilkynningu um málið segir loks að Coca-Cola European Partners og The Coca-Cola Company hafi sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr sykri í vörulínu sinni.