*

Matur og vín 30. desember 2020

Kokteilar í áramótateitið

Íslandsmeistari barþjóna, Patrek Ísak, mælir með kokteilum sem gott er að hafa við hönd í áramótateitinu.

Sveinn Ólafur Melsted

Framreiðslu- og kokteilgerðarmaðurinn Patrekur Ísak stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmóti barþjóna árið 2019 og hefur haldið titlinum síðan, þar sem ekki var hægt að halda keppnina á þessu ári sökum COVID-19. Patrekur Ísak, sem starfar sem vaktstjóri á veitingastaðnum Reykjavík Meat, segir að það hafi verið hálfgerð tilviljun að hann hafi endað bak við barinn. „Kokteilagerð er einn af mörgum þáttum sem fylgja starfinu þó að framreiðslumenn endi mun oftar á gólfinu en bak við barinn. Ég var nemi á Nauthól í þrjú ár og var oftar en ekki settur bak við barinn þar. Meistari minn og eigendur veitingastaðarins áttu það til að ýta mér út í kokteilgerðakeppnir, sem tíðkast mikið hjá birgjum sem og framleiðendum íslensks áfengis. Eftir að hafa tekið þátt í nokkrum slíkum og ekki náð neinu sæti var mann farið að þyrsta í það að koma, sjá og sigra á Íslandsmótinu."

Sigurvegari Íslandsmótsins í kokteilagerð tryggir sér þátttökurétt á heimsmeistaramóti á vegum IBA (International Bartenders Association). Í fyrra var keppnin haldin í borginni Chengdu í Kína og var Patrekur Ísak því meðal keppenda á mótinu. Til að gera langa sögu stutta þá gerði Patrekur Ísak góða hluti og hafnaði í fjórða sæti í sínum flokki. „Það var svolítið svekkjandi að koma ekki heim með verðlaun en þessi keppni var engu að síður frábær upplifun og skemmtileg lífsreynsla," segir hann.

Nú, þegar áramótin eru á næsta leiti, þótti Viðskiptablaðinu tilvalið að fá Patrek Ísak til að setja saman nokkra kokteila sem passa eins og flís við rass í áramótateitið. Patrekur Ísak segir að það fyrsta sem komi upp í hugann þegar hann hugsar um áramótin sé kampavín og freyðivín, vín sem „sprengd" eru upp. Mælir hann með eftirfarandi kokteilum í áramótateitið, hvort sem fólk drekki þá fyrir, samhliða eða eftir að búið er að opna nýárskampavínið um það leyti sem nýja árið gengur í garð.

Hátíðar Royal

„Ef þú skelltir í jólaglögg yfir hátíðarhöldin og átt afgang sem þú vilt ekki að fari til spillis, er tilvalið að töfra fram Hátíðar Royal. Það er frábært að breyta niðursoðna rauðvínsglögginni einfaldlega í svokallaða Kir Royal útfærslu. Ef kampavínið er ekki búið fyrir miðnætti er hægt að nýta það í þennan ljúffenga og freyðandi kokteil," segir Patrekur Ísak um kokteilinn Hátíðar Royal. 

Uppskrift:

 • 3 cl jólaglögg
 • Toppað upp með kampavíni
 • Borið fram í flautuglasi

Koníak  Sour

„Það verður alltaf að vera einn Sour drykkur í skemmtanaheitum. Góður Sour kemur skapinu í lag og þessi gefur ekkert eftir," segir Patrekur Ísak.

Uppskrift:

 • 4 cl koníak
 • 3 cl sítrónusafi
 • Sykursýróp
 • Ein eggjahvíta
 • Dass af Angostura
 • Hristur

Bailey's Espresso Martini

„Hver elskar ekki Bailey's með kaffinu?" spyr Patrekur Ísak. „Kaldur og ljúffengur eftir kvöldmatinn sem keyrir þig í gang meðan beðið er eftir niðurtalningu ársins."

Uppskrift:

 • 3 cl vodka
 • 3 cl Bailey's
 • 3 cl Espresso kaffi
 • Hristur með klaka 
 • Borinn fram í martini glasi

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Áramót  • kokteilar  • Patrekur Ísak