*

Veiði 6. október 2014

Kolféll fyrir sportinu

Hrannar Pétursson hefur farið í ótal ógleymanlegar veiðiferðir með frábæru fólki.

Það var fyrir rúmum tíu árum sem Hrannar Pétursson, fráfarandi framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, varð fyrst var við sjúkdómseinkenni vegna veiðibakteríu sem síðar áttu eftir að ágerast hressilega að eigin sögn.

„Fyrstu ferðirnar fór ég með vinum, sem flestir voru vanir fluguveiðimenn og náðu ágætum árangri á árbakkanum á meðan ég veiddi ekki neitt. Það var raunar ekki fyrr en í þriðju eða fjórðu veiðiferðinni sem ég setti í fisk og varð svo æstur að ég dró maríulaxinn minn á land á c.a. 20 sekúndum! Gestur G. Gestsson, veiðifélagi minn, starði úr fjarska furðu lostinn á taktana en hefur síðan þá skemmt sér þúsund sinnum við að segja frá tilburðum mínum við löndunina. Ég fékk strax tvo laxa til viðbótar, sem ég landaði nokkuð faglega eftir leiðsögn Gests, og mætti rígmontinn í veiðihúsið enda kom á daginn að nýgræðingurinn ég reyndist aflahæsti maðurinn á þessari fyrstu vakt. Síðan hefur Black Brahan nr. 14 og Jarðlangsstaðakvörn í Langá á Mýrum verið í miklu uppáhaldi,“ segir Hrannar.

„Þarna kolféll ég fyrir sportinu og hef farið í ótal ógleymanlegar veiðiferðir með frábæru fólki, búið til minningar sem munu endast mér ævina og jú, veitt nokkra fiska í leiðinni sem tengdamóðir mín skilur ekki að ég skuli sleppa.“

Skyggnst er inn í líf fleiri stjórnenda íslensks atvinnulífs í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.