*

Bílar 4. maí 2016

Kom, sá og sigraði

Nýr Opel Astra var á dögunum valinn Bíll ársins í Evrópu. Ný útfærsla Opel Astra var prófuð í Porto í Portúgal á dögunum.

Róbert Róbertsson

Nýr Opel Astra var á dögunum valinn Bíll ársins í Evrópu en þetta eru ein eftirsóttustu verðlaun í bílaiðnaðinum ár hvert. Opel hefur verið í mikilli sókn að undanförnu í Evrópu og þessi nýjustu verðlaun gefa þýska bílaframleiðandanum byr undir vængi. Hér á landi hefur Opel átt undir að sækja undanfarin áratug en líklegt má telja að auknar vinsældir bílsins auk fjölda verðlauna sem hann hefur sópað til sín í Evr­ópu breyti genginu hér á landi til hins betra.

Mjög breyttur til hins betra

Nýr Opel Astra kemur mjög breyttur til leiks og mun betri en forverinn auk þess sem hönnunin er einnig mjög flott, bæði að innan sem utan. Hlaðbaksútfærsla bílsins er án efa sú vinsælasta en nýja langbaksútgáfan, sem reynsluekið var í Porto, kemur einnig mjög sterk inn og býður upp á aukið pláss fyrir fólk og farangur.

Það er gaman að aka um hina fögru, gömlu hafnarborg Porto og sveitirnar í kring. Ekið er um 100 km í austur að Douro dalnum sem er ægifagur. Reynsluakstursbíllinn er í svokallaðri Innovation útgáfu og vel búinn með nýrri 1,4 lítra dísilvél sem er mjög spræk. Hún er 136 hestöfl og togið er 320 Nm. Vélin er óvenju hljóðlát af dísilvél að vera og mjög þýð.

Manni finnst raunar að það sé stærri vél undir húddinu því hún skilar mjög fínum afköstum og afli. Eyðslan er frá 4,6 lítrum miðað við blandaðan akstur samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og koltvísýringslosunin er 122 g/km. Bíllinn er góður akstursbíll og þótt hann sé langur í Sports Tourer útfærslunni þá hagar hann sér ekki sem slíkur. 

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Astra  • Opel  • Portugal