*

Bílar 13. desember 2018

Kona sigrar á Spáni

Borgarsportjeppinn Hyundai Kona var í vikunni kjörinn besti bíll ársins 2019 á Spáni af dagblaðinu ABC.

Borgarsportjeppinn Hyundai Kona var í vikunni kjörinn besti bíll ársins 2019 á Spáni af dagblaðinu ABC sem árlega setur saman dómnefnd með fulltrúum fjölda spænskra fjölmiðla til að tilnefna bíl ársins þar í landi.

Í dómnefndinni eru 36 manns frá m.a. dagblöðum, tímaritum, sjónvarps- og útvarpsstöðvum auk þess sem almenningur tekur þátt með netkosningu. Í mati á bílum sem dómnefndin skoðar er tekið tillit til ytri og innri hönnunar, útlits, tækni- og öryggisbúnaðar, áreiðanleika bílanna, afkasta og aksturseiginleika ásamt lengd ábyrðartíma og markaðhlutdeildar. Verðlaun ABC í ár eiga einnig við rafknúna útfærslu Kona.

Reynslan sýnir að bílar framleiðenda, sem hlotið hafa þennan eftirsótta titil ABC, hafa í kjölfarið átt velgengni að fagna á spænska markaðnum. Það þykir endurspegla trúverðugleika þeirra og það mið sem bílkaupendur taka af þeim við kaup á næsta bíl. Kona er fyrsti borgarsportjeppinn á markaðnum sem einnig er hægt að fá 100% rafknúinn.

Í kosningunni fékk Kona 312 stig, Peugeot 508 hlaut 264 stig og SEAT Arona 182. Þetta er í fjórða sinn frá 2008 sem Hyundai hreppir titilinn á Spáni sem þykir sá eftirsóttasti í bílgreininni þar. Hyundai i30 hlaut titilinn 2008, ix35 hlaut hann 2011 og Tucson 2016.

Stikkorð: Hyundai  • Kona