*

Sport & peningar 3. apríl 2013

Koníaksstofa í klúbbhúsi Golfklúbbs Borgarness

Klúbbhús GB verður tekið í gegn í vor og í sumar verður Íslandsmótið í holukeppni haldið á vellinum í sumar.

Hafnar eru breytingar á innra skipulagi í golfskálanum að Hamri í Borgarnesi, en þær fela m.a. í sér að innréttuð verður koníaksstofa þar sem eldhúsið hefur verið hingað til. Er greint frá þessu í Skessuhorni.

Þá verður afgreiðsla á neðri hæð skálans flutt í suðurenda hússins. Það er Golfklúbbur Borgarness sem er umsjónaraðili golfskálans á Hamri en eigandi hans er Borgarbyggð. Klúbburinn hefur nýtt húsið undir starfsemi sína undanfarna áratugi og gerðu félagsmenn það meðal annars upp á sínum tíma að stórum hluta í sjálfboðavinnu en það þjónaði áður sem sveitabær ábúenda að Hamri.

Jóhannes Ármannsson framkvæmdastjóri GB segir í samtali við Skessuhorn að rými hússins muni nýtast betur eftir breytingarnar sem stefnt er á að verði lokið áður en golfvertíðin hefst í maí. Klúbburinn fagnar 40 ára afmæli sínu í sumar og verður Íslandsmótið í holukeppni haldið á vellinum í júni. Er það stærsta mótið sem klúbburinn hefur haft umsjón með.

Stikkorð: Golf  • Borgarnes  • Golfklúbbur Borgarness  • Skessuhorn