*

Ferðalög & útivist 31. júlí 2013

Konunglega svítan á Le Bristol í París tilbúin

„Loksins" gætu einhverjir lúxusþyrstir Parísaraðdáendur sagt en Le Bristol hótelið í París hefur loks klárað endurbætur á bestu svítunni sinni.

Þá geta lúxushótelaðdáendur andað léttar því Le Bristol hótelið í París hefur lokið við yfirhalningu á konunglegu svítu hótelsins. Endurbætunar kostuðu 1,3 milljón evrur eða rúmar 205 milljónir króna. 

Svítan var tekin í notkun á ný nú í maí. Hún er 300 fermetrar og er skreytt í 18. aldar stíl. Í svítunni er stór stofa með eikarparketi. Veggirnir eru málaðir í anda sænskra kastala. Mulberry, Meissen og Rubelli eru meðal merkja sem má finna í innanhúshönnun.

Annað skemmtilegt í þessari tveggja svefnherbergjasvítu er borðstofa þar sem allt að tólf manns geta snætt dýrindis máltíðir frá báðum veitingastöðum hótelsins sem að sjálsögðu eru tveggja stjarna Michelinstaðir.

Og hótelnóttin í þessari dýrð er ekki ókeypis, ekki frekar en annar himneskur lúxus sem vart fæst metinn til fjár. Nóttin kostar tæplega 2,5 milljónir króna ef aðeins annað svefnherbergið er notað en fyrir alla svítuna kostar nóttin rúmar 2,8 milljónir króna.

En samkeppnin er ekki langt undan. The Ritz Paris hótelið hefur verið lokað síðan 2012 vegna allsherjaryfirhalningar en það verður opnað á ný árið 2014. Hotel de Crillon á Place de la Concorde er einnig lokað vegna endurbóta og opnar á ný árið 2015.

Lúxushótelið Le Royal Monceau hefur grætt á öllum þessum lokunum en auk þess að vera fimm stjörnu hótel fékk það nafnbótina Palace á dögunum. Bestu hótelin í Frakklandi fá  Palace nafnbótina en hún er gefin af Atout France sem er franska ferðamálaráðið. Aðeins þrettán hótel í Frakklandi hafa fengið nafnbótina en þau sem eru í París eru, auk Le Royal Monceay, Le Bristol, Four Seasons George V, Le Meurice, Park Hyatt Paris Vendome og Le Plaza Athénée. 

The Telegraph segir frá málinu hér.