*

Bílar 19. janúar 2018

Korendo og Sorento frumsýndi

Nýr SsangYong Korando jeppi verður frumsýndur á morgun laugardag sem og nýr og breyttur Kia Sorento jeppi.

Bílabúð Benna frumsýnir nýjan Korando jeppa frá SsangYong á morgun kl. 12-16 bæði á Tangarhöfðanum og á Njarðarbraut í Reykjanesbæ. Um er að ræða fjórhjóladrifinn jeppa sem er hár undir lægsta punkt. Korando jeppinn hefur mikla dráttargetu, enda valdi félag breskra hjólhýsaeigenda hann “Towcar of the Year 2018” í sínum flokki. Nýr Korando státar af stílhreinu og kröftugu útliti, þar sem hugvitsamleg hönnun sér m.a. til þess að bíllinn er óvenju rúmgóður að innan, auk þess sem enginn miðjustokkur er í gólfinu á honum. Þannig gefst nóg fótapláss fyrir alla farþega, sem er mikill kostur, sérstaklega í lengri ferðalögum.

Bílaumboðið Askja frumsýnir á sama tíma nýjan og breyttan Kia Sorento sem er í boði í bæði 5 og 7 sæta útgáfum. Sorento er stór og stæðilegur jeppi með 2,2 lítra dísilvél sem er bæði aflmikil en að sama skapi sparneytin. Hún skilar 200 hestöflum en Sorento er með tveggja tonna dráttargetu. Vélin er einnig sparneytin og er eyðslan aðeins frá 6,2 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri. Nýja útgáfan af Sorento kemur með 8 þrepa sjálfskiptingu.

Þá verður 4x4 sýning hjá Suzuki í Skeifunni þar sem fjórhjóladrifnir bílar frá japanska bílaframleiðandanum verða í aðalhlutverkinu.