*

Bílar 1. maí 2018

Kraftmikil lúxuskerra

Nýr Porsche Cayenne var kynntur bílablaðamönnum á grísku eyjunni Krít nýverið, en hann verður frumsýndur 5. maí hér á landi.

Ný kynslóð lúxus sportjeppans Porsche Cayenne verður frumsýnd hér á landi 5. maí næstkomandi hjá Bílabúð Benna. Um er að ræða talsvert breytta útfærslu af þessum vinsæla bíl. Porsche Cayenne kom fyrst á markað árið 2002 og nú kemur fram á sjónarsviðið þriðja kynslóð sportjeppans. Alls hafa rúmlega 770.000 af fyrstu tveimur kynslóðum Cayenne selst í heiminum.

Hönnun Cayenne hefur breyst að utanverðu og er straumlínulagaðri en áður. Yfirbyggingin er úr áli að stærstum hluta. Mesta breytingin finnst mér á afturhluta sportjeppans. Þar eru ný afturljósin mjög breytt frá því sem áður var og ég er ekki frá því að hann sæki meira í útliti til minni bróðursins Porsche Macan sem mér finnst af hinu góða. Að innan er nýr Cayenne klassískur og fallegur, ekta Porsche útlit þar sem vandað er sérlega vel til verka. Porsche skjaldarmerkið er á stýrinu og ræshnappurinn vinstra megin niðri við stýrið sem er klassískt frá þýska lúxusbílaframleiðandanum.

Það er mikill lúxus í innanrýminu og leðurklædd sætin afar þægileg. Helsta breytingin er að snertitakkar eru nú í miðjustokknum þar sem pianosvört áferðin er áberandi. 12,3” aðgerðarskjárinn býður upp á sama upplýsingakerfi og í Porsche Panamera og sömuleiðis eins hljómkerfi sem er hvort tveggja alveg eðal.

Venjulegur snúnings- og hraðamælir er í mælaborðinu og til viðbótar eru tveir 7 tommu skjáir báðum megin sem sýna ýmsar upplýsingar um aksturinn sem ökumaður getur stýrt með tökkum á stýrinu.

440 hestafla sportjeppi

Cayenne kemur í þremur mismunandi útfærslum: Cayenne, Cayenne S og síðan Cayenne Turbo. Cayenne S var prófaður á Krít með geysilega öflugri 2,9 lítra V8 bensínvél með tvöfaldri forþjöppu. Hún skilar bílnum 440 hestöflum og hámarkstogið er alls 550 Nm. Hann fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,2 sekúndum. Hægt er að velja sérstakan Sport Chrono pakka í bílinn og þá er hann aðeins 4,9 sekúndur í hundraðið. Reynsluakstursbíllinn var með slíkum pakka og það er þess virði að hafa hann með, engin spurning.

4,9 sekúndur í hundraðið er afbragðsgott fyrir þennan stóra bíl. Hámarkshraði jeppans er 265 km. Það er sannarlega hörkugott afl undir húddinu á þessum fallega lúxusjeppa. Eyðslan er frá 9,2 lítrum á hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og CO2 losunin er frá 209 g/km.

Einnig er í boði 3 lítra V6 bensínvél sem skilar 340 hestöflum, 40 fleiri hestum en í forveranum. Turbo er síðan með 550 hestafla V8 vél og slíkur bíll er einungis 3,9 sekúndur í hundraðið. Porsche kynnir jeppann til að byrja með eingöngu með bensínvélum en dísilvél er væntanleg fljótlega sem og Plug-in Hybrid útfærsla af jeppanum. Nýja E-Hybrid vélin verður 3 lítra og skilar 462 hestöflum, slíkur bíll er 5,0 sekúndur í hundraðið sem er afbragðsgott fyrir E-Hybrid jeppa í dag. Allar útgáfur Cayenne eru með virku fjórhjóladrifi.

Með sportbílagenin í blóðinu

Cayenne er hörkugóður akstursbíll enda með sport bílagenin í blóðinu. Hann er talsverð blanda af lúxus- og sportbíl. Stundum finnst mér eins og ég sé að keyra minni bíl en raun ber vitni þar sem sportbílaeiginleikarnir eru svo ríkir í honum. Nýr Cayenne er með fjögur aksturskerfi, normal, sport og sport plus og auk þess eitt sérsniðið að hverjum og einum ökumanni. Með Sport Chrono pakkanum er hægt að skipta á milli akstursstýringa með takka í stýrinu, aðgerð sem Porsche bauð fyrst upp á í 918 Spyder sportbílnum.

Cayenne beygir nú á öllum fjórum hjólum og það finnst hversu stöðugur og nákvæmur hann er í beygjum og þegar skipt var um akrein. Stýringin er sérlega góð og þar spilar inn í tæknivæddur, rafeindastýrður fjöðrunarbúnaður sem er í þessum nýja Cayenne. Átta hraða Tiptronic S gírkassinn, sem er nýr af nálinni, býður upp á hraðari skiptingar en áður í Cayenne og eykur enn betur aksturseiginleikana og sérstaklega þá sportlegu. Bíllinn er með nýjum undirvagni klæðingin er meira úr áli en áður. Þannig hefur tekist að létta hann um heilt 65 kíló.

Stendur sig í torfærum

Það var mjög gaman að prófa sportjeppann í fjalllendu landslagi Krítar þar sem vegirnir eru oft bugðóttir og mjóir. Þar nutu afbragðsgóðir aksturseignleikar Cayenne sín vel og aflið sérstaklega þegar færi gafst á beinum vegarköflum og þjóðvegum þessarar fögru grísku eyju. Þá var Cayenne prófaður í sérstökum utanvegarakstri og reyndist mjög vel á grófum og steini lögðum vegarslóða í fjöllunum. Þá var sportjeppinn hækkaður upp um nokkra sentimetra með einni einfaldri aðgerð. Þessi lúxusjeppi er svo sannarlega til í tuskið ef því er að skipta.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Bílabúð Benna  • Porsche Cayenne  • Krít  • lúxuskerra