*

Bílar 10. apríl 2018

Kraftmikill frá Króatíu

Bílaframleiðandinn Rimac frumsýndi nýjan ofursportbíl á bílasýningunni í Genf í síðasta mánuði.

Það ráku margir upp stór augu á bílasýningunni í Genf í síðasta mánuði þegar króatískur ofursportbíll var frumsýndur. Bílaframleiðandinn heitir Rimac og bíllinn ber heitið Rimac Concept Two.

Höfuðstöðvar Rimac eru í Sveta Nedelja í Króatíu og þar á bæ eru menn stórhuga. Eins og nafnið bendir til er hér á ferðinni hugmyndabíll en framleiðslan mun samt vera langt komin. Og samkvæmt upplýsingum frá króatíska bílaframleiðandanum verða framleidd 150 eintök af bílnum. Sportbíllinn er rafdrifinn með fjóra rafmótora sem skila ótrúlegum 1.914 hestöflum. Bíllinn mun komast í hundraðið á innan við tveimur sekúndum og í 300 km hraða á aðeins 11,8 sekúndum. Miðað við þetta þá er Rimac Concept Two hraðasti götubíll heims.  

Bíllinn kostar um 200 milljónir króna. Það hefur þó ekki stoppað pantanir á bílnum og samkvæmt upplýsingum frá Rimac munu einugis örfáir bílar, af þeim 150 sem á að framleiða, vera eftir.