*

Tölvur & tækni 18. desember 2013

Kraftmikill og knár hátalari

Litli þráðlausi hátalarinn frá Bose kom á óvart. Viðskiptablaðið prófaði græjuna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Þróun í hátölurum hefur fleygt fram í takt við tæknina. Einn af þeim nýjustu frá Bose er dæmi um græju sem sannar hið margkveðna, að margur er knár þótt hann sé smár. Hátalarinn heitir Bose Soundlink Mini, vegur aðeins 670 grömm með boddíi úr áli sem gerir hann sterkbyggðari en ella. Þetta er þráðlaus græja sem hægt er að tengja við snjallsíma, spjaldtölvur og aðrar græjur sem bjóða upp á Bluetooth-tæknina.

Viðskiptablaðið prófaði Bose-græjuna á dögunum og líkaði vel. Nokkrar sekúndur tók að tengja síma við hátalarann og reyndist minnsta mál að streyma tónlist úr símanum í hátalarann. Sama máli skipti með tengingu fartölvu við símann. Drægnin var góð og skipti engu þótt um fimm metrar voru frá tölvu að hátalara sem var uppi á hillu í stofu eða á skrifborði í vinnunni eða gengið um með símann í allt að tíu metra fjarlægð. Tengingin hélst í nær öllum tilvikum nema þeim ef of margir veggir voru á milli símans og hátalara.

Hljómur hátalarans er óvenju góður og kraftmikill þótt hann komi ekki í stað stærri hátalara á heimilum. Hann er engu að síður þrælfínn, gat haldið uppi fjörinu í einu partíi og engin furða að hann hafi fengið fína dóma hjá erlendum tækjaspekúlöntum. Þá bætir það hátalarann töluvert að hann hvílir á hleðsluvöggu og hægt að taka hann með sér hvert sem er. Hátalarinn má þó ekki vera í margra kílómetra fjarlægt frá vöggunni enda er hleðslan sögð duga í um sjö klukkustundir.

Litli hátalarinn kostar rétt tæpar 40 þúsund krónur í verslun Nýherja. Það er ekki mikið fyrir kraftinn.

Í hnotskurn: Bose Soundlink Mini er flottur og kraftmikill hátalari. Þótt hátalarinn sé agnarsmár þá er hann ofsaknár.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Bose  • Bose Soundlink mini