*

Bílar 23. júní 2015

Kraftmikill Peugeot 308 GTi

Franski bílaframleiðandinn Peugeot kynnir nýjan og aflmikinn bíl.

Franski bílaframleiðandinn Peugeot mun á næstunni kynna nýjan og aflmikinn bíl sem byggður er á Peugeot 308, sem valinn var bíll ársins í Evrópu í fyrra. Nýi bílinn fær stafina GTi og verður afar sportlegur bíll. Hann verður með LED ljós að framan og meira er lagt í innréttingu bílsins en í hinum hefðbundna 308 bíl. Sætin verða sérlega sportleg og hægt er að velja á milli Alcantara- og leðuráklæði.

Peugeot 308 GTi verður með 1,6 lítra vél sem þrátt fyrir smæðina mun skila bílnum alls 270 hestöflum og er það mögulegt með aðstoð öflugrar forþjöppu. Bíllinn er aðeins 6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Peugeot 308 GTi verður lægri en hefðbundinn Peugeot 308, lengra er á milli hjóla, stærri bremsur og vindskeiðar bílsins eiga að tryggja að hann kljúfi loftið betur. Peugeot stefnir hinum nýja 308 GTi gegn Volkswagen Golf GTI en sá franski skilar 60 hestöflum meira en sá þýski.

Stikkorð: Peugeot  • Peugeot 308 GTi