*

Menning & listir 5. desember 2012

Kraftwerk spilar í túrbínusal Tate-safnsins

Þýsku tæknitröllin í Kraftwerk ætla að spila átta plötur í heild sinni á tónleikum í London í byrjun næsta árs.

Fjórmenningarnir í þýsku rafhljómsveitinni Kraftwerk ætla að spila tónlist af átta plötum sínum á einni viku í túrbínusal Tate Modern-listasafnsins í London í febrúar á næsta ári. Ein plata verður spiluðu á svo til hverju kvöldi frá miðvikudegi og fram á fimmtudag í vikunni á eftir. Hljómsveitin tekur sér aðeins frí á sunnudeginum. Þetta verða sambærilegir tónleikar og hljómsveitin hélt á listasafninu Museum of Modern Art (MoMA) í New York fyrr á árinu.

Tónleikarnir heita eðlilega: Kraftwerk – The Catalogue 1 2 3 4 5 6 7 8.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir safnstjóranum Chris Dercon að túrbínusalurinn henti vel fyrir tónleika Kraftwerk enda megi líta á tónleika bandsins sem listaverk í sjálfu sér. Listamaðurinn Ólafur Elíasson setti upp verk sitt The Weather Project í sama sal árið 2003. 

Á fyrstu tónleikunum miðvikudaginn 6. febrúar verður Autobahn frá árinu 1974 spiluð í heild sinni. Daginn eftir verður Radio-Activity frá 1975 tekin fyrir, síðan Trans Europe Express frá 1977 og Die Mensch-Machine frá 1978 fylgir í kjölfarið. Computer-World frá árinu 1981 verður svo flutt í heild sinni mánudaginn, Techno Pop frá 1986 á þriðjudeginum, The Mix frá árinu 1991 á miðvikudeginu og síðasta plata hljómsveitarinnar, Tour de France frá árinu 2003, á síðustu tónleikunum á fimmtudeginum. 

Hér má sjá Kraftwerk flytja lag af Radio-Activity á MoMa í apríl síðastliðnum.

 

Stikkorð: Kraftwerk