*

Sport & peningar 8. júlí 2020

Krefur Nike um 20 milljóna evra bætur

Barcelona hefur frestað frumsýningu á nýrri treyju eftir uppgötvun á framleiðslugalla.

Fótboltafélagið Barcelona mun sækjast eftir bótum frá Nike vegna framleiðslugalla á nýjum treyjum liðsins. Spænski fótboltarisinn mun fyrir vikið missa af mikilvægu sölutímabili í lok spænsku La Liga leiktíðarinnar. 

Algengt er að fótboltalið spili í nýjum treyjum í lok leiktímabils. Barcelona liðið átti að klæðast nýjum treyjum, fyrir leiktímabilið 2020/21, í grannslag gegn Espanyol í kvöld. Hætt hefur verið við þau áform eftir uppgötvun á framleiðslugalla Nike sem veldur því að litir treyjunnar dofna við bleytu, hefur Financial Times eftir fólki með þekkingu á málinu.

Samkvæmt einum aðila mun Barcelona sækjast eftir 15-20 milljóna evra bótum vegna sölu sem félagið missir af. Annar einstaklingur með þekkingu á viðræðunum segir of snemmt að segja til um hversu háa fjárhæð fótboltafélagið mun sækjast eftir þar sem enn á eftir að laga gallann og því óljóst hvenær treyjurnar fara í sölu. 

Vonast er til að vandamálið verði leyst fyrir lokastig Meistaradeildarinnar sem hefst í ágúst. Barcelona gerði 1-1 jafntefli við Napoli í fyrri viðureign 16-liða úrslitanna þann 25. febrúar síðastliðinn. Seinni leikur viðureignarinnar mun fara fram annað hvort 7. eða 8. ágúst næstkomandi. 

Katalóníuliðið gerði tíu ára treyjusamning við Nike árið 2018 sem er metinn á 150-155 milljónir evra árlega, einn stærsti samningur sinnar tegundar í íþróttaheiminum. Sama ár stofnaði klúbburinn dótturfélagið Barca Licensing and Merchandising, sem heldur utan um smásöluverslanir og treyjusölu liðsins víðs vegar um heim. Flest önnur fótboltalið reiða sig á þriðja aðila til að sjá um smásölustarfsemi. 

Tekjur Barcelona námu 841 milljón evra, eða um 133 milljarða íslenskra króna, á tímabilinu 2018/19 sem var rúmlega 150 milljónum hækkun frá fyrra tímabili. 

Á undanförnum vikum hafa önnur stór fótboltafélög með treyjusamninga við Nike, líkt og Inter Milan og Chelsea, spilað í nýjum treyjum fyrir komandi leiktímabil en þær virðast ekki hafa sömu framleiðslugalla. 

Stikkorð: Barcelona  • Nike