*

Matur og vín 4. nóvember 2012

Kringlukráin vel geymt leyndarmál

Matarrýni: Kringlukráin er hlýlegur staður og býður upp á vingjarnlega og góða þjónustu sem vandfundin er.

Kringlukráin er eitt best geymda leyndarmál borgarinnar þegar kemur að því að borða í hádeginu. Kringlukráin er tæplega staðurinn til að finna sér framtíðarmaka á föstudags- eða laugardagskvöldi en þó má finna þar góðan mat og á góðu verði.

Kringlukráin er sem veitingastaður vissulega í myrkara lagi en umfram allt er hann hlýlegur. Það hversu dökkur hann er gerir stóran stað að hlýlegum stað. Þó að mikið sé að gera í hádeginu er nær öruggt að þeir sem sækja staðinn geti fengið þar borð. Staðurinn hentar vel til léttra fundarhalda og hittings, hvort sem um er að ræða tvo eða fleiri. Til viðbótar við hlýleika staðarins gerir vingjarnlegt starfsfólk staðinn enn notalegri. Það má segja starfsfólki staðarins til hróss að betri og vingjarnlegri þjónusta er vandfundin hér á landi.

Og það eru fleiri ástæður til að velja Kringlukrána til að snæða í hádeginu. Viðskiptavinir þurfa ekki að leita lengi að bílastæðum og eiga það ekki á hættu að fá stöðumælasekt. Væntanlega er þó tvennt sem flestir spá í þegar þeir velja sér stað til að borða, maturinn og verðið. Hvort tveggja ætti að uppfylla kröfur vandlátustu manna. Hvort sem menn vilja fá sér eldbakaðar pizzur (sem eru með þeim betri í bænum), hamborgara, steikarsamloku, fisk, kjúkling, pasta, salat eða „alvöru“ mat á borð við steikur þá er það allt í boði á mjög hógværu verði. Auðveldast er að velja sér rétt af fjölbreyttum hádegismatseðli sem breytist daglega, en fastagestir eru væntanlega fljótir að finna sitt uppáhald.

Til gamans má geta þess að Kringlukráin hefur starfað á sömu kennitölunni frá árinu 1995, sem er því miður ekki algengt í þessum geira þannig að það er vert að taka það fram.

Stikkorð: Kringlukráin