*

Menning & listir 29. nóvember 2013

Kristín María: Samkennd og samhugur heilar okkur sjálf

Samtökin Sól í Tógó standa fyrir stóru listaverkauppboði á laugardaginn í Hannesarholti.

Lára Björg Björnsdóttir

„Uppboðið hefur fengið ótrúlegan meðbyr. Það eru svo margir sem gleðjast með okkur og dást að þeim árangri sem Sól í Tógó hefur náð með starfi sínu. Þetta fólk vill ljá verkefninu lið með vinnu, gjöfum og þátttöku,” segir Kristín María Sigþórsdóttir, upplifunarhönnuður og viðburðastýra. Kristín María er ein þeirra sem koma að verkefninu Sól í Tógó.

Á morgun, laugardaginn 30. nóvember verður haldið listaverkauppboð í Hannesarholti til styrktar byggingu heimilis í Tógó. Listafólkið Eggert Pétursson, Ólafur Elíasson, Ragnar Kjartansson, Gabríela Friðriksdóttir, Davíð Örn Halldórsson, Elín Hansdóttir, Hallgrímur Helgason og fleiri hafa gefið verk í söfnunina. Blásið var til uppboðsins til að ágóðinn gæti runnið í að ljúka við byggingu heimilis fyrir 80 börn sem hjálparfélagið Sól í Tógó stendur fyrir. 

„Það er gleðilegt að þó að við séum hér á norðurhjara veraldar og oft á tíðum dálítið einangruð með okkar eigin vandamál þá sýnum við vilja og getum haft mjög jákvæð og skilvirk áhrif á staði úti í heimi þar sem þörfin er mikil. Þá má heldur ekki gleyma því hvað svona verkefni er hollt og gerir mikið fyrir okkar eigið samfélag. Samkennd og samhugur heilar okkur sjálf og hefur góð áhrif á okkur og umhverfi okkar,” segir Kristín María. Hún segir þau hafa fengið mikinn stuðning og að ótrúlega stór og sterkur hópur af okkar færustu listamönnum komi að uppboðinu. „Þau hafa tekið höndum saman og gefið verk sín til þess að styðja við verkefnið. Verkin sem verða boðin upp spanna breitt litróf íslenskrar nútímalistar, eins og hún gerist best í dag. Aðstandendur menningarsetursins Hannesarholts hafa gefið okkur aðgang að fallega húsinu þeirra við Grundarstíg bæði til að sýna og bjóða upp verkin og gert mikið til að skapa stemningu fyrir okkur og þennan málstað í húsinu.”

Nánar er rætt við Kristínu Maríu um uppboðið á laugardaginn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.