*

Menning & listir 22. janúar 2017

Kvikmyndahátíð í Háskólabíói

Ellefu kvikmyndir verða sýndar á frönsku kvikmyndahátíðinni sem hefst á næstu dögum.

Franska kvikmyndahátíðin verður haldin í 17. sinn í næstu viku. Opnunarkvöld hátíðarinnar verður miðvikudaginn 25. janúar. Þá verður forsýning á nýjustu kvikmynd Pauls Verhoevens, sálfræðitryllinum Elle, sem framleitt var á síðasta ári. Kvikmyndin var tilnefnd af hálfu Frakklands til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin.

Alls verða ellefu kvikmyndir sýndar á hátíðinni, tíu franskar og ein kanadísk. Hátíðin  stendur síðan frá 27. janúar til 10. febrúar í Reykjavík og 28. janúar til 3. febrúar á Akureyri.

Samhliða kvikmyndahátíðinni fer fram stuttmyndasamkeppni til heiðurs Sólveigu Anspach og þann 2. febrúar verða Sólveigar Anspach verðlaunin afhent í fyrsta skiptið. Verðlaununum er ætlað að greiða veg ungra íslenskra eða frönskumælandi kvikmyndagerðarkvenna. Sólveig lést árið 2015 en hún bjó lengst af í Frakklandi, þar sem hún starfaði við kvikmyndagerð.

Franska sendiráðið á Íslandi og Alliance française standa að kvikmyndahátíðinni í samstarfi við Háskólabíó.