*

Menning & listir 20. nóvember 2019

Kynjahlutföllin lagast frá Söguöld

Í fornu máli eru kynjahlutföllin í málinu 60% karlkynsorð, 21% hvorugkyns- og 19% kvenkynsorð. Hlutföllin mun jafnari í íslensku nútímamáli.

Textasafnið Risamálheildin er textasafn úr íslensku nútímamáli sem hefur að geyma um það bil 1,2 milljarða lesmálsorða. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð um það bil 38% af heildinni, dæmi um kvenkynsorð eru um 32%, og dæmi um hvorugkynsorð um 30%.

Þetta er meðal þess sem kemur í svari á Vísindavef Háskóla Íslands við spurningunni, hver eru kynjahlutföll orða í íslensku?

Það eru kennarar við Háskólann sem svara spurningum á Vísindavefnum og bendir sá sem er hér til svara á að spurningu um kynjahlutföll megi skilja á tvo vegu. Annars vegar geti verið átt við fjölda mismunandi orða í hverju kyni (flettiorð), en hins vegar geti verið átt við fjölda dæma um orð af hverju kyni í texta (lesmálsorð).

Vísað er í annað textasafn úr nútímamáli, Markaðri íslenskri málheild, sem inniheldur 25 milljónir lesmálsorð, en þar eru hlutföllin nokkurn veginn nákvæmlega þau sömu og Risamálaheildinni hér að ofan. 

„Í fornu máli eru hlutföllin talsvert ólík. Í safni sem hefur að geyma Íslendingasögur, Sturlungu, Heimskringlu og Landnámabók eru tæplega 1700 þúsund orð. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð um það bil 60%, dæmi um kvenkynsorð eru um 19%, og dæmi um hvorugkynsorð um 21%. Þessar tölur eru þó ekki alveg sambærilegar við tölur úr nútímamáli. Þessir fornu textar eru frásagnartextar sem segja fyrst og fremst frá karlmönnum, athöfnum þeirra og afrekum. Sérnöfn eru því miklu hærra hlutfall textans en í nútímatextunum, og flest þeirra eru karlmannsnöfn. Ef sérnöfnin eru dregin frá lækkar hlutfall karlkynsorða verulega, niður fyrir 50%. Eftir standa samt ýmiss konar „starfsheiti“ karlmannanna, svo sem konungur, jarl, bóndi, og ýmis frændsemisorð sem mun oftar vísa til karlmanna – sonur, bróðir, frændi og fleiri. Ef öll slík orð væru dregin frá er ekki víst að hlutfall dæma um karlkynsorð væri miklu hærra í fornum textum en í nútímamáli,“ segir í svarinu á Vísindavefnum. 

Stikkorð: Vísindavefurinn  • Íslenska  • nútímamál