*

Veiði 10. febrúar 2013

Kynna laxveiði í Rússlandi - myndir

Árnar á Kola skaga án efa með þeim bestu í heiminum og þekktar fyrir stórlaxa, segir Pálmi Gunnarsson.

Miðvikudaginn 13. febrúar nk. verður haldin kynning á stangveiði í Rússlandi, nánar tiltekið á svæðum Kharlovka company á Kola skaga. Hingað koma Justin McCarthy, sölustjóri hjá Kharlovka Company og  Michael Frodin þekktur fluguhnýtari og veiðimaður.

„Það er mögnuð upplifun að fara og veiða á þessu svæði,“ segir Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður, veiðimaður og pistlahöfundur hér á Viðskiptablaðinu, í samtali við blaðið en hann er einn af skipuleggjendum kynningarinnar. Sjálfur hefur Pálmi veitt nokkrum sinnum á svæðinu og ber því góða sögu.

Árið 1998 tók breskur kaupsýslumaður, Peter C. Power um 100 þúsund hektara svæði á Kolaskaga á leigu til 49 ára. Innan svæðisins eru laxveiðiárnar Kharlovka, Eastern Litza, Rynda og Zolotaya, auk auk ógrynni urriða- og silungavatna. Power stofnaði síðan árið 2003 Atlantic Salmon Research (ASR) Verndarsjóð Atlanshafslaxins. Að sögn Pálma voru árnar afar illa farnar vegna ofveiði þegar Power tók við þeim en með markvissri verndunarstarfsemi með sjálfbærni að leiðarljósi réttu þær hægt og bítandi úr kútnum.

„Peter setti einfaldar reglur sem fólu í sér að öllum laxi skyldi sleppt og í dag er staðan á stofnum ánna frábær og þær eru án efa með þeim bestu í heiminum, þekktar fyrir stórlaxa“ segir Pálmi.

Fyrir tveimur árum keyptu Vladimir Rybalchenko og fjölskylda hans Kharlovka company af Peter C. Power og halda þau ótrauð áfram því frábæra starfi sem Power hóf árið 1998. .

Á svæðinu eru tvö glæsileg veiðihús og aðbúnaður allur eins og best verður kosið og þjónusta við veiðimenn til fyrirmyndar. Veiðimenn eru ferjaðir á milli í þyrlum en að sögn Pálma hefur þyrluflotinn á svæðinu nýlega verið endurnýjaður.

Sem fyrr segir fer kynningin fram á miðvikudaginn. Hún verður haldin á Reykjavik Natura (áður Hótel Loftleiðir) á milli kl. 17-19. Aðgangur er ókeypis og léttar veitingar í boði.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af svæðinu og aðstöðunni.

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Pálmi Gunnarsson  • Laxveiði  • Kola skagi