*

Matur og vín 9. maí 2019

Kynna nýjan gin og tónik bjór

Einstök Ölgerð hefur kynnt nýjan gin og tónik sumarbjór til leiks.

Nú í sumarbyrjun kynnir Einstök Ölgerð nýjan og sérstaklega ferskan sumarbjór til leiks. Í grunninn er bjórinn léttur og ferskur Pils, en einber og limesafi gefa honum skemmtilegan keim sem margir gin og tónik unnendur munu kannast við og njóta. Bjórinn er 4,8% að styrkleika og getur verið skemmtileg byrjun á sólbjörtum sumarkvöldum, jafnvel með nettan lime bát innanglass. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.  

G&T Pils bjórinn verður fáanlegur í dósum í sumar í verslunum Vínbúðanna og einnig á vel völdum veitingahúsum af krana.

Í tilkynningunni segir að frá upphafi hafi hönnuðir Einstök fengið að leika sér með útlit Einstök víkingsins í árstíðarbjórum ölgerðarinnar. Í tilviki G&T Pils bjórsins sé sterk vísun til róta Gin & tónik hefðarinnar í Englandi. Víkingurinn skarti forlátum kúluhatti og glæsilegu einglyrni.

Arctic Berry Ale bjórinn frá Einstök verður einnig í boði í verslunum Vínbúðanna í sumar líkt og undanfarin ár, skreyttur skolhærðum víkingnum með sólgleraugu og vænum skammti af blá- og krækiberjum úr Svarfaðardal.

Nýverið bættust fjögur ný fylki í Bandaríkjunum, Nebraska, Gerorgia, Iowa, Illinois ásamt Ontario fylkis í Kanada við markaðssvæði Einstök. Íbúar þeirra svæða, sem og hinna 16 fylkja Bandaríkjanna og 23 landanna sem Einstök fæst nú í, munu þó þurfa að bíða enn um sinn eftir að prófa nýja G&T bjórinn sem aðeins verður í boði á Íslandi fyrst um sinn.

Sala bjórsins á veitingastöðum hefst í dag, fimmtudaginn 9. maí, og blásið verður til sérstaks fagnaðar á veitingastaðnum Sæta svíninu við Ingólfstorg frá kl. 17. Komu hans verður svo fagnað þar áfram alla helgina og eins á veitingastaðnum Frederiksen Ale House, Ölstofu Akureyrar og ýmsum fleiri.