*

Tölvur & tækni 12. ágúst 2013

Kynna nýjan iPhone í september

Apple sviptir líklega hulu af nýjum iPhone-síma í næsta mánuði. Ekki er útilokað að nokkrar gerðir símans líti dagsins ljós.

Bandaríski tæknirisinn Apple mun að öllum líkindum kynna næsta iPhone-síma 10. september, samkvæmt upplýsingum netmiðilsins All Things D. Netmiðillinn segir ekki miklar upplýsingar um símann hafa lekið út um glufur Apple sem bæta einhverju við það sem flestir búast við. Þar á meðal er bætt myndavél og bættur örgjörvi auk nýs stýrikerfis. Ár er síðan iPhone 5 var kynntur til sögunnar.

The Inquirer bætir því við að m.a. sé ekki vitað hvort síminn muni heita iPhone 5S eða iPhone 6 og hvort ódýrari útgáfa af símanum muni koma á markað. Það þykir hins vegar ekki útilokað. 

Stikkorð: Apple  • iPhone  • iPhone 5