*

Bílar 27. september 2018

Kynnisferðir fá afhentan hundraðasta hópferðabílinn frá VDL

Kynnisferðir fengu fjóra nýja hópferðabíla frá VDL afhenta í verksmiðjum VDL í Eindhoven í Hollandi á dögunum.

Kynnisferðir fengu fjóra nýja hópferðabíla frá VDL afhenta í verksmiðjum VDL í Eindhoven í Hollandi á dögunum. Frá árinu 2005 hafa Kynnisferðir keypt 70 rútur og 30 strætisvagna af VDL og er því samtals um að ræða 100 bíla sem Kynnisferðir hafa keypt af framleiðandanum. 

,,Við erum í dag með 45 rútur frá VDL í rekstri auk 30 strætisvagna. VDL hefur alla tíð lagt áherslu á umhverfisvæna bíla og eru bílar þeirra sérstaklega léttbyggðir og eyðslugrannir. Í dag eru VDL leiðandi í framleiðslu rafmagnsstrætisvagna og eru yfir 250 rafmagnsvagnar í notkun víða í Evrópu og hefur þeim samtals verið ekið um 15 milljónir kílómetra. VDL býður í dag fjölbreytt úrval rafmagnsvagna sem vonandi verða fljótlega sýnilegir á götum Reykjavíkur," segir Björn Raganrsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, og bætir við að það hafi verið skemmtilegur áfangi að afhending á bíl númer 100 fór fram í verksmiðjum framleiðandans í Eindhoven á dögunum.

VDL Bus & Coach er hluti af hollenska fjölskyldufyrirtækinu VDL Groep sem samanstendur af 99 fyrirtækjum í yfir 20 löndum og með meira en 17.000 manns í vinnu. Fyrirtækið var stofnað árið 1953 Meðal annars framleiðir VDL sportjeppann BMW X1 fyrir þýska lúxusbílaframleiðandann og hluta af framleiðslu Mini Cooper í verksmiðjum fyrirtækisins í Eindhoven. Kynnisferðir og áður SBK hafa verið umboðsaðilar fyrir VDL á Íslandi frá 2001.