*

Bílar 12. júlí 2018

Kynnisferðir fá nýja strætisvagna

Kynnisferðir hafa tekið í notkun þrjá nýja tveggja hæða strætisvagna sem notaðir verða í skoðunarferðir í Reykjavík.

Kynnisferðir hafa tekið í notkun þrjá nýja tveggja hæða strætisvagna sem notaðir verða í skoðunarferðir í Reykjavík. Vagnarnir eru af gerðinni Higer og koma í stað eldri strætisvagna. Nýju vagnarnir er með sæti fyrir 62 farþega og þægilegir í öllu aðgengi. 

,,Við erum mjög ánægð með að taka nýju vagnanna í notkun. Við köllum þá Hopparana enda getur fólk hoppað í þá og úr á skoðunarferðum um Reykjavík. Við höfum fengið góð viðbrögð við að bjóða upp á þessar skoðunarferðir um borgina á Hoppurunum og þær hafa verið afar vinsælar allt frá því að við buðum fyrst upp á þær árið 2004. Vagnarnir vekja mikla athygli í borginni enda rauðir og tveggja hæða og líkjast mjög hinum klassísku bresku strætisvögnum. Hoppararnir aka víða um borgina og framhjá öllum helstu sögulegum stöðum í borginni. Farþegar fá góða leiðsögn á ferð sinni um borgina en fólk getur valið um átta mismunandi tungumál í gegnum sérstakt hljóðkerfi í bílunum," segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.

Björn segir að nýju vagnarnir séu með Euro 6 mengunarstuðulinn og því talsvert umhverfismildari en forverar þeirra. ,,Það skiptir auðvitað miklu máli að þeir menga minna og eru eyðslugrennri en eldri bílarnir. Nýju vagnarnir eru einnig hljóðlátari og meira fyrir augað en forverarnir. Þá eiga þeir auðveldara með að keyra um þröngar götur borgarinnar en það var að hrjá eldri vagnanna talsvert þar sem voru á tveimur hásingum að aftan sem þýðir að þeir voru stirðari en þessir nýju sem eru á einni hásingu að aftan," segir hann.

Skoðunarferðirnar eru í samvinnu Kynnisferða við fyrirtækið City Sightseeing sem starfrækir slíkar skoðunarferðir um allan heim. ,,City Sightseeing rekur þessa þjónustu í 105 borgum í 35 löndum og fimm heimsálfum og við erum stolt að vera hluti af því og geta boðið upp á þessa þjónustu í Reykjavík," segir Björn ennfremur.