*

Hitt og þetta 25. mars 2018

Ferðasprotar framtíðarinnar

Tíu sprotafyrirtæki kynntu viðskiptahugmyndir sínar á lokaviðburði Startup Tourism.

Síðustu þrjá mánuði hafa tíu sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu tekið þátt í viðskiptahraðlinum Startup Tourism. Verkefninu lauk á föstudaginn, 23. mars, með kynningum fyrirtækjanna á viðskiptahugmyndum sínum fyrir fullum sal fjárfesta og lykilaðila í ferðaþjónustu á Íslandi.

Fyrirtækin sem kynntu starfsemi sína fyrir helgi voru í lok síðasta árs valin úr hópi 115 umsókna, til þátttöku í Startup Tourism. Þetta er í þriðja sinn sem hraðallinn fer fram en alls hafa 30 fyrirtæki tekið þátt frá árinu 2016, 81% þeirra hafa nú þegar hafið rekstur.

Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring. Ár hvert eru tíu fyrirtæki valin til þátttöku. Þau fá aðgang að fullbúnu skrifstofurými meðan á verkefninu stendur og gefst kostur á að njóta fræðslu og þjálfunar og þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila á sviði ferðaþjónustu og annarra sérfræðinga og stjórnenda þeim að kostnaðarlausu.

Áhugasamir geta kynnt sér fyrirtækin og starfsemi þeirra á heimasíðu Startup Tourism, startuptourism.is. Hér er listi yfir þátttakendurna í ár:

  • Arctic Surfers: Sérhæfð ferðaþjónusta fyrir brim-, róðra- og snjóbrettaiðkendur í ævintýraleit.
  • Havarí: Gisting og viðburðir á lífrænu býli í Berufirði.
  • Igloo Camp: Einstök tjaldhótel í stórbrotinni náttúru.
  • Kaffi Kú: Einstakt kaffi hús, fræðsla um hamingjusamar kýr á sjálfbæru býli í Eyjafjarðarsveit.
  • Propose Iceland: Viðburðaþjónusta fyrir ferðamenn á biðilsbuxum.
  • Pure Magic: Leikhúsupplifun byggð á íslenskum sagnaarfi.
  • BasicRM: Sjálfvirkni í verðlagningu á ferðaþjónustu.
  • Stórsaga: Víkingaheimur í Mosfellsdal.
  • Under the Turf: Þjóðleg upplifun í gömlum torfbæ í Borgarnesi.
  • When in Iceland: Veflausn sem tengir ferðamenn við einstaklinga sem bjóða upp á afþreyingartengda ferðaþjónustu.

Bakhjarlar Startup Tourism eru Isavia, Bláa Lónið, Íslandsbanki og Vodafone. Icelandic Startups sér um framkvæmd verkefnisins í samstarfi við Íslenska ferðaklasann.